17.03.1986
Sameinað þing: 62. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3182 í B-deild Alþingistíðinda. (2790)

Iðgjöld bifreiðatrygginga

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er vissulega miður að hæstv. trmrh. skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu. En þetta mál er tvíþætt. Annars vegar er það að tryggingafélögin hafa ákveðið 22% hækkun sem þm. eru sammála um, þeir sem hér hafa talað, að sé of mikil í ljósi allra aðstæðna. Hinn flöturinn á málinu er sá að tryggingafélögin hafa haft samráð um þessa hækkun. Þau hafa öll sömu iðgjöldin og þau ákveða þetta í bróðerni.

Úr öðrum stjórnarflokknum, þeim sem kennir sig mest við frjálsa samkeppni, koma ráðherra viðskiptamála og ráðherra tryggingamála. Það sem hefur gerst hér er alveg öfugt við frjálsa samkeppni. T.d. í Bandaríkjunum, því landi frjálsrar samkeppni, hygg ég að forstjórar tryggingafélaga gengju ekki lausir ef þeir hegðuðu sér svona. Dómstólar þar mundu taka á þessum málum - og hafa gert það þegar haft er svona samráð Nú vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. og varaformanns Sjálfstfl.: Ætla þeir að beita sér fyrir því að gerðar verði ráðstafanir til að þessu samsæri tryggingafélaganna gegn neytendum linni? Því þetta er ekkert annað en samsæri þeirra sem ráða markaðnum um að hafa þar öll ráð neytenda í hendi sér.

Hér var gerð tilraun fyrir fáeinum árum, sennilega einum 15 árum, til að stofna tryggingafélag. Þá ofbauð félögum í Félagi ísl. bifreiðaeigenda þetta samsæri tryggingafélaganna og þeir stofnuðu eigið tryggingafélag, Hagtryggingu. Ég var einn þeirra sem var svo vitlaus að trúa þessu og keypti hlutabréf í þessu fyrirtæki fyrir svo sem eins og hálft mánaðarkaup á þeim tíma. Hvað hefur gerst núna? Sjóvátryggingarfélagið er búið að éta þetta tryggingafélag. Og samsærið hefur haldið áfram öll árin. Það er þetta sem er að. Og ég spyr hæstv. viðskrh. og varaformann Sjálfstfl.: Ætla þeir að heita sér fyrir því að á þessu sviði verði frjáls samkeppni?