17.03.1986
Sameinað þing: 62. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3182 í B-deild Alþingistíðinda. (2791)

Iðgjöld bifreiðatrygginga

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég held að í þessum efnum hafi komið fram dálítill misskilningur í umræðunum. varðandi tryggingafélögin. Í fyrsta lagi er það þannig að tryggingaeftirlitið hefur það hlutverk að fara yfir stöðu tryggingafélaganna og ganga þannig frá málum að fólk geti með sæmilega öruggum hætti tryggt sína bíla eða sínar eigur hjá tryggingafélögunum. Það er hlutverk tryggingaeftirlitsins. Það er ekki ákvörðunarefni tryggingaeftirlitsins síðan hver iðgjöldin eiga að vera. Það er ákvörðunarefni ráðherra út af fyrir sig. Og ég hygg að það hafi fleiri menn en ég í starfi heilbr.- og trmrh. aftur og aftur skorið niður hækkunartölur tryggingaeftirlitsins. Hvað eftir annað hefur það verið gert. Ég hygg að hæstv núv. viðskrh. hafi m.a. beitt sér með þeim hætti á sínum tíma hvað eftir annað.

Hins vegar er ljóst, og við þurfum að taka tillit til þess, að það er fleira í bifreiðaiðgjöldum en bifreiðakostnaður sem slíkur. Hérna er líka um að ræða slysabóta- og líftryggingarþátt sem vegur mjög þungt í þessum málum öllum og þarf að taka tillit til líka. Þetta nefni ég til þess að menn hafi alla myndina.

Hitt málið er svo samráðið um tryggingariðgjöldin. Það hygg ég að stangist tvímælalaust á við lögin um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Þau lög heyra undir viðskrn. og viðskrh. og þess vegna er það á réttum stað að gera þá kröfu til hæstv. viðskrh. að hann taki á þessu máli á grundvelli verðlagslaganna. Undir þá kröfu, sem hér hefur komið fram, vil ég sérstaklega taka.

Ég vil svo fagna því að hæstv. ríkisstj. skuli hafa snúið af stefnu sinni í verðlagsmálum. Stefna hinnar frjálsu álagningar á öllum sviðum gengur bersýnilega ekki upp. Ef menn ætla sér að veita hér eitthvert verðlagsaðhald þá verður að koma til önnur stefna í verðlagsmálum. Það er sú stefna sem hæstv. viðskrh. er nú að framkvæma, en það er allt önnur stefna en ríkisstj. hafði fram til þess tíma að kjarasamningarnir voru gerðir verið að framkvæma. Þess vegna lýsi ég sérstakri ánægju með það, herra forseti, að hæstv. viðskrh. skuli hafa tekið ákvörðun um að framkvæma aðra stefnu í verðlagsmálum en þá sem núv. ríkisstj. setti sér í öndverðu.