19.03.1986
Efri deild: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3204 í B-deild Alþingistíðinda. (2801)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Það er ekki meining mín að fara að ræða efnislega um þetta frv. á þessu stigi málsins. Má vera að við síðari umræðu gefist frekari kostur á að fjalla um það nánar.

Ég verð hins vegar að segja eins og er. Þetta frv. veldur mér vissum vonbrigðum. Út af fyrir sig held ég að það séu ekki sérstaklega breytingar á löggjöf um málefni sveitarfélaga sem við erum í þörf fyrir. Miklu fremur þyrfti að marka með skýrari hætti og taka ákvarðanir um hvernig bæri að haga tekjuöflun sveitarfélaganna. Það er að sjálfsögðu grundvallaratriði í þessu dæmi að skýrt sé kveðið á um hverjar skuli vera tekjur sveitarfélaganna því að sjálfsögðu byggjast verkefnin á því hvað sveitarfélögin hafa úr miklu að spila. Þá er líka í framhaldi af því auðveldara að meta með hvaða hætti væri þörf á að breyta skipan sveitarfélaga í landinu. Að þessu leyti finnst mér þetta frv. bera merki vissrar afturfótafæðingar.

Það hefur reyndar einn stóran kost. Það er búin að standa svo lengi yfir umræða um þessar breytingar og það er búið að tala svo mikið um þessar þarfir að kannske fæst viss lausn í þeirri umræðu með að skáka í gegnum Alþingi frv. sem þessu og þá ekki síst ef menn gætu þar á eftir verið í sæmilegum friði fyrir áframhaldandi umræðu um þessa miklu nauðsyn á næstu árum. En ég held að þetta frv. stefni í það gagnstæða. Það veki fleiri spurningar en það svarar.

Það er útilokað annað en menn sjái í hendi sér að ýmsar ákvarðanir í þessu frv. eru með þeim hætti að menn ganga út frá að það verði gerðar mjög fljótlega breytingar á þessum lögum. Annað getur tæpast staðist. Ég get í þessu sambandi minnt á að svo er kveðið á að sýslunefndir og sýslumenn, sem á að kjósa innan aðeins nokkurra vikna, eiga að koma verkefnum sínum fyrir, finna þeim form. Löggjafinn gefst upp við að segja með hvaða hætti eigi að skipa þeirra verkefnum. Það sjá allir að auðvitað verður að ganga frá þessu í lögum og finna þessu ákveðið form. Menn bókstaflega gefast upp við það núna við meðferð málsins á Alþingi að taka um þetta ákvörðun. Þetta þykir mér vera veikt.

Eins og ég sagði áðan hefur umræðan staðið lengi og margar nefndir hafa starfað og mikil umfjöllun átt sér stað. Ég minnist þess t.d. að þegar ég tók þátt í sveitarstjórnarmálum og var í stjórn samtaka sveitarfélaga á Austurlandi komu þar á borð manna heilar bækur um þessi efni. Það er af þeirri ástæðu gott að geta náð einhverjum árangri miðað við umræðuna.

Það sem mig langaði þó einkum að minnast á eru þrjú atriði á þessu stigi málsins.

Þá er efst í huga mínum þegar er verið að tala um sameiningu sveitarfélaga, þegar er verið að tala um að sameina smærri sveitarfélög þeim stærri vegna þess að þau séu ekki megnug þess að vinna þau verkefni sem þeim ber að sinna. Ég held að þetta sé mikill misskilningur. Mjög mörg smá sveitarfélög sem ég þekki til vinna sín störf og inna sína þjónustu af hendi fyrir fólkið í þeim sveitarfélögum með miklum ágætum. Ég get t.d. nefnt í þessum efnum sveitahreppana í Austur-Skaftafellssýslu. T.d. hefur nýverið verið byggt mjög snoturt samkomu- og skólahús í hinu fámenna og áður afskekkta sveitarfélagi Hofshreppi. Það tók þá fjögur ár að vinna þetta verk. Í næsta sveitarfélagi við hliðina voru endurbyggð gamalt félagsheimili og gamall skóli með þeim hætti að athygli hefur vakið langt út fyrir það umhverfi þar sem menn sáu þessi verkefni eiga sér stað. Þannig er þetta miklu víðar. Fámenn sveitarfélög ná miklum árangri í að færa tímana til betri vegar. Þetta stafar m.a. af því að fólkið hjálpast að því að koma þessum verkefnum áfram.

Auðvitað býr ákveðinn veikleiki í fámenninu. Því ætla ég ekki að neita. En fámennið á líka ákveðinn styrkleika. Og það er fjarri því að ég treysti á lög í þeim efnum að skipa þar málum betur fyrir en nú er í sambandi við skipan hreppanna og vara reyndar við öllum breytingum í þeim efnum.

Það er svo annað mál að frv. er ekki róttækt í þessum efnum og það er kostur við það, sérstaklega þegar til þess er litið hvernig umræðan hefur verið um þessi efni þar sem menn hafa verið að tiltaka miklu hærri tölur um íbúafjölda sem lágmark í sveitarfélögum.

Þá er það önnur megináhersla sem hefur komið inn í umræðuna um sveitarstjórnarfrumvarpið og það er þriðja stjórnsýslustigið. Reyndar er ekki gengið út frá því í frv. og það finnst mér vera líka kostur. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt áður en menn fara að tala um þriðja stjórnsýslustigið í alvöru, m.a. í umræðum á Alþingi, að það skýrist hversu miklu fylgi það á að fagna úti á landsbyggðinni. Þrátt fyrir að ég fagni þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um þau málefni á síðustu misserum held ég að þar sé þó fyrst og fremst um hugsjónaumræðu að ræða og fjarri því að almenningur hafi fengið sannfæringu fyrir því að það ætti að gera miklar og róttækar breytingar á stjórnskipuninni í landinu með tilliti til þriðja stjórnsýslustigsins. Við erum ekki fjölmenn þjóð og ég er ekki viss um að það mundi henta okkur að hafa hér fylki með miklu sjálfsforræði fram yfir það sem nú er.

En út af fyrir sig er það hárrétt, sem kom fram hjá hv. þm. Stefáni Benediktssyni, að um leið og því er hafnað í frv. að taka upp þriðja stjórnsýslustigið verður viss brotalöm á því í sambandi við samstarf sveitarfélaganna. Þar er ekki um neinar markvissar ákvarðanir að tefla nema það eitt að leggja niður sýslunefndirnar sem mér finnst vera mikill ókostur við frv. Ef eitthvað er verkar sú ákvörðun í þá átt að veikja byggðarsamfélagið í staðinn fyrir það gagnstæða. Upp úr þessu koma svo byggðasamlögin sem eru í rauninni algjörlega óskilgreind.

Það er í raun og veru helst verið að setja í lög ákvæði um skipan sem þegar er komin á með óformlegum hætti víða um land þar sem sveitarfélög hafa sameinast um viss verkefni í skólamálum, í heilsugæslumálum og reyndar fleiri framfaramálum. Það form er verið að festa þarna í lög. Eins og ég sagði áðan eru þau verkefni mörg hver bundin við tiltekin sveitarfélög. Ég get t.d. bent á að í ýmsu samstarfi í Austur-Skaftafellssýslu eru sveitahrepparnir saman, í öðru samstarfi eru öll sveifarfélögin. Þar hefur líka verið og er enn sýslunefnd sem hefur haft viss og afmörkuð verkefni, ekki einungis sem kveðið er á um í lögum heldur líka sem hafa orðið til í samstarfi hinnar sýslunefndarinnar og sveitarfélaganna.

Þess vegna er augljóst mál að þarna vantar að kveða á um með skýrari hætti. Í rauninni finnst mér niðurstaðan sem er í frv. ekki vera með þeim hætti að forsvaranlegt geti talist.

Hér hef ég fjallað sérstaklega um þrjú atriði í sambandi við þetta mál. Ég beini því sérstaklega til hv. félmn. að taka þau til athugunar við frekari afgreiðslu málsins.

Það er alveg útilokað að hugsa sér að sú vinnutilhögun verði hér höfð á að mönnum gefist ekki næði til að skoða þessi mál í þessari hv. deild þannig að menn f'ai fyrir því bærilega sannfæringu hvernig þessi mál muni þróast í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að flytja lengra mál, en vera má að ég skýri betur frá minni afstöðu við síðari umræðu málsins.