19.03.1986
Neðri deild: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3207 í B-deild Alþingistíðinda. (2807)

343. mál, skógrækt

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um skógvernd og skógrækt á þskj. 627.

Núgildandi skógræktarlög eru að stofni til frá árinu 1955. Með lögum nr. 22 frá 1966 var bætt við þau lög ákvæðum um ræktun skjólbelta og styrki til slíkrar ræktunar, enda hafði reynsla manna þá sýnt að rækta mátti skjólbelti í flestum byggðarlögum landsins ef þeim var sýnd nægileg umhirða.

Lögin frá 1966 gerðu ráð fyrir að allir jarðræktarmenn gætu notið styrks til að koma upp skjólbeltum, þ.e. styrkja vegna girðingarkostnaðar, plöntukaupa og gróðursetningar. Til að hljóta styrk skv. lögunum þurfti bæði að leggja fram töluvert af eigin fé auk þess sem fullnægja þurfti ýmsum skilyrðum. Með því var komið í veg fyrir að aðrir en duglegir ræktunarmenn hæfust handa um ræktun skjólbelta.

Tæpum tveimur áratugum síðar eða með lögum nr. 76 30. maí 1984 er nýjum kafla bætt inn í skógræktarlögin, kaflanum um ræktun nytjaskóga á bújörðum. Þau lög kveða á um styrk ríkissjóðs til ræktunar nytjaskóga á bújörðum og getur styrkur í hverju tilviki mest verið 80% af stofnkostnaði við ræktunina, en viðkomandi bóndi eða jarðareigandi ber 20%. Það er hlutverk Skógræktar ríkisins að ákveða og semja um hvað skuli teljast til stofnkostnaðar í þessu sambandi, en meginþættir stofnkostnaðar eru vinna, girðingarefni og plöntun. Lögin gera ráð fyrir að bændur vinni við ræktunina eins og þeir frekast hafa tök á. Starfsmenn Skógræktar ríkisins eða skógræktarfélag annast verkstjórn við girðingar, eru ráðgefandi um plöntuval, plöntun og hirðingu. Ræktun nytjaskóga á bújörðum getur auk þess verið mikill atvinnugjafi í sveitum, en að svo miklu leyti sem bændur og heimafólk vinna ekki störfin er hér um að ræða möguleika á sumarvinnu fyrir ungt fólk.

Bændur og forsvarsmenn skógræktarmála hafa í seinni tíð sýnt mikinn og vaxandi áhuga á aukinni skógrækt í þeim tilgangi að koma upp nytjaskógum á bújörðum og leggja með því grunninn að nýrri búgrein hér á landi. Lögin frá 1984 hafa einnig að markmiði skógræktarstarf með skipulegum hætti á grundvelli sérstakra áætlana um nytjaskóga eða héraðsáætlana. Tilgangur laganna er einmitt sá að ríkissjóður hvetti til og styrkti ræktun nytjaskóga á bújörðum, en forsenda stuðnings er að skógræktin verði liður í búskap á viðkomandi jörð.

Ljóst er að skógræktarstarf á Íslandi hefur tvíþættan tilgang. Skógar eru ræktaðir til að prýða og bæta landið. Auk þess eru skógar einnig ræktaðir til nytja, framleiðslu borðviðar, girðingarstaura, jólatrjáa og skrautgreina. Þá eru afurðir skóga einnig nýttar sem eldiviður og er ekki ósennilegt að sá þáttur geti haft vaxandi þýðingu í framtíðinni.

Auk þess sem sagt hefur verið hefur skógrækt margvíslegan tilgang annan sem fellur undir óbeinar nytjar. Skógar skapa skjól, vernda og bæta jarðveg, vernda annan gróður og auka fjölbreytni hans. Þannig eykur skógrækt notagildi landsins á margvíslegan hátt, enda eru skóglendi víða mjög eftirsótt til útivistar.

Það frv. sem nú hefur verið lagt fram hefur einkum það markmið að fella saman framangreinda þrjá lagabálka um skógrækt og skógvernd í ein lög. Auk þess felur frv. í sér breytingar á gildandi löggjöf eins og nánar verður rakið hér á eftir. Rúmir þrír áratugir eru liðnir frá setningu stofnlaganna og hafa breyttar aðstæður því leitt af sér nokkur nýmæli og breytingar.

Fyrir tæpum áratug fóru forgöngumenn skógræktarmála að sýna heildarendurskoðun skógræktarlaganna áhuga. Það leiddi m.a. til þess að árið 1979 var skipuð nefnd til að endurskoða lög nr. 3/1955, um skógrækt. Nefndina skipuðu Guttormur Þormar, hreppstjóri Fljótsdalshrepps, Haukur Ragnarsson skógarvörður, Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri og Sigurður Blöndal skógræktarstjóri. Vann nefndin um tíma að endurskoðun laganna, en lauk ekki störfum. Nokkrum árum síðar var endurskoðun laganna tekin upp að nýju en þá í samvinnu starfsmanna Skógræktar ríkisins og landbrn. og er frv. þetta árangur þeirrar samvinnu.

Verða nú rakin helstu nýmæli frv.

Orðaskýringar í 2. gr. frv. eru nýmæli, en þar er að finna skilgreiningu nokkurra hugtaka sem koma fyrir í texta. Þá er nú fjallað um verkefni Skógræktar ríkisins í sérstökum kafla, sbr. II. kafla, og eru þau skýrgreind nánar en í gildandi löggjöf.

Gert er ráð fyrir að Skógrækt ríkisins eigi hlut að rannsóknum á sviði skógræktarmála í samvinnu við aðila sem stunda rannsóknir á sviði atvinnuveganna, en það er nýmæli frá því sem gildandi lög kveða á um. Þá er í 5. gr. frv. gert ráð fyrir tímabundinni skipan skógræktarstjóra til sex ára í senn úr hópi fastra starfsmanna Skógræktar ríkisins. Í 6. gr. frv. er það nýmæli að finna að nú er gert ráð fyrir að sérmenntaðir starfsmenn Skógræktar ríkisins hafi tilskilda lágmarksmenntun, háskólapróf eða próf frá skógræktarskóla.

III. kafli frv., um skógvernd og friðun, svarar efnislega mest til III. kafla núgildandi laga, en þó er efni hans sett fram með talsvert öðrum hætti en í gildandi lögum.

Í 7. gr. er gert ráð fyrir að skógræktarstjóri hafi einn heimild til að veita undanþágu frá banni 1. málsl. og er það breyting frá því sem nú gildir, en skv. 14. gr. núgildandi laga hafa skógarverðir heimild til að veifa undanþágu frá banni á að búfé sé beitt á skógræktarland.

2. málsgr. 11. gr. frv. hefur að geyma nýmæli sem tekur til þeirrar sérstöðu þegar gripahús eru í eða við skóglendi. Þar sem svo hagar til er eiganda eða notanda hússins skylt að hindra með girðingu að búfé komist í skóglendi á tímabilinu frá 1. nóv. til 1. júní ár hvert.

IV. kafli frv., sem fjallar um meðferð skóglendis, svarar efnislega til Il. kafla núgildandi laga.

13. gr. frv. hefur að geyma svofellt nýmæli um meðferð skóglendis:

„Skylt er eiganda eða notanda skóglendis að takmarka svo notkun þess að það rýrni hvorki að stærð né gæðum. Bannað er að leggja eld í skóglendi og aldrei má brenna sinu svo nærri skóglendi að hætta sé á að eldur geti borist þangað. Hlífa skal nýgræðingi trjágróðurs.“

Þá er efni 14. gr. frv. mun fortakslausara en samsvarandi ákvæði gildandi laga. Bann er við skógarhöggi nema til komi samþykki Skógræktar ríkisins. Þá er það skilyrði sett að rækta skuli skóg í stað þess sem höggvinn er, en það er nýmæli.

Þá er í 15. gr. frv. gert ráð fyrir að gróðurverndarnefndir skuli hafa frumkvæði að sérfræðilegu mati á ástandi og meðferð skóglendis. Jafnframt því getur skógræktarstjóri leitað til gróðurverndarnefnda og óskað eftir skýrslu þeirra um ástand skóglendis og meðferð þess, en slíkt skyldubundið ákvæði er ekki í gildandi löggjöf.

17. gr. frv. hefur einnig að geyma nýmæli um samvinnu Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins um friðunaraðgerðir þegar saman fara landeyðing og gróðureyðing á stórum svæðum.

V. kafli frv., um ræktun nytjaskóga á bújörðum, er efnislega samhljóða 3. gr. laga nr. 76/1984.

VI. kafli frv. svarar efnislega til laga nr. 22 frá 1966 um viðauka við lög nr. 3 frá 1955, um skógrækt. Frv. gerir þó ráð fyrir talsverðum breytingum á stuðningi við skógrækt frá því sem gildandi lög kveða á um. Auk ákvæða kaflans hefur 10. gr. jarðræktarlaga nr. 79 frá 1972, sbr. breytingu með lögum nr. 71 frá 1985, einnig að geyma ákvæði um framlög til skjólbeltaræktunar, sbr. einnig reglugerð nr. 344/1985.

Skv. 29. gr. frv. er nú gert ráð fyrir verulega hærri styrk til trjáplöntukaupa en skv. 6. gr. laga nr. 22 frá 1966. Skv. þeirri grein má styrkur nema allt að 1/3 hluta girðingarkostnaðar og helmingi af andvirði trjáplantna og kostnaðar við gróðursetningu. 29. gr. frv. gerir ráð fyrir að styrkur nemi allt að 75% kostnaðar við trjáplöntukaup og 50% kostnaðar við girðingar vegna ræktunar.

VII. kafli frv., sem fjallar um sölu og skiptingu skógarjarða og skóglendis, er nýmæli. Skv. 31. gr. er Skógrækt ríkisins áskilinn forkaupsréttur að skógarjörðum að frágengnum forkaupsréttarhöfum skv. jarðalögum nr. 65/1976.

32. gr. frv. hefur hins vegar að geyma takmarkanir á skiptingu skóglendis. Lagt er bann við því að skóglendið sé hlutað sundur eða skipt upp í sumarbústaðalóðir, eins og dæmi eru um, nema til komi sérstakt leyfi ráðherra og fyrir liggi umsögn skógræktarstjóra.

Efni VIII. kafla frv., um Skógræktarfélag Íslands, svarar til V. kafla laga nr. 3 frá 1955, sbr. 4. gr. laga nr. 76 frá 1984.

Herra forseti. Ég hef rakið helstu atriði þessa frv. og legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.