19.03.1986
Neðri deild: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3210 í B-deild Alþingistíðinda. (2808)

343. mál, skógrækt

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það frv. til l. um skógvernd og skógrækt sem hæstv. ráðh. hefur mælt fyrir er nýlega fram lagt hér og mér hefur ekki gefist kostur á að fara yfir það í einstökum atriðum. Það er vissulega góðra gjalda vert þegar unnið er að lagabótum og við skulum vænta þess að í frv. sé að finna einhver nýtileg atriði til stuðnings skógræktar- og skógverndarstarfi í landinu. Ég vildi aðeins koma á framfæri nokkrum almennum athugasemdum og örfáum fsp. til hæstv. ráðh. vegna þessa máls.

Í fyrsta lagi vil ég nefna það að ég er þeirrar skoðunar að skógvernd í landinu væri best komin undir stjórn umhverfismála, en þau efni hafa verið til umræðu öðru hvoru í þinginu í sambandi við margboðað lagafrv. af hálfu ríkisstj., nánar tiltekið af hálfu hæstv. félmrh., um umhverfisvernd. Það frv. hefur hins vegar enn ekki séð dagsins ljós þó að ríkisstj. hafi nú setið í heil þrjú ár og það er vissulega miður að svo er ekki.

Gert er ráð fyrir samkvæmt þessari löggjöf þeirri skipan óbreyttri að skógræktarmálefni og skógverndarmálefni falli undir landbrn. Ég hefði talið æskilegt að þessi skipan væri endurskoðuð í tengslum við endurskoðun á stjórn umhverfismála í landinu og skógverndarþátturinn a.m.k. væri lagður undir umhverfisráðuneyti eða það ráðuneyti þar sem helstu þættir umhverfismála yrðu settir.

Einn gildasti þáttur skógverndarstarfs í landinu er almenn gróðurvernd. Ástand þess birkikjarrs, sem enn tórir en hefur liðið undir beit og rányrkju um aldir sums staðar, er víða mælikvarði á þá rányrkju sem enn á sér stað í sambandi við beitarnot allvíða um land og raunar víða um land að óhætt er að segja.

Mér þætti gott ef hæstv. landbrh. lýsti viðhorfum sínum til þessa þáttar, þ.e. hvar skógverndarstarfinu væri best komið í stjórnsýslunni, þó að hann vissulega svari því með ákveðnum hætti með framlagningu þessa frv. En ég tel nauðsynlegt að um þessi mál verði fjallað ef svo fer að einhvern tíma komi fram af hálfu ríkisstj. margnefnt og marglofað frv. um umhverfismál.

Þá vil ég nefna í tengslum við þetta frv. að nú þegar eru boðaðar stórfelldar breytingar á búskap í landinu og ekki síst varðandi sauðfjárbúskapinn í landinu og framtíðarspárnefnd forsrh. hefur fengið í hendur, að því er fjölmiðlar hafa greint frá, það mat að vegna markaðsþróunar með sauðfjárafurðir horfi svo að á fimm ára tímabili eða nálægt því þurfi að draga stórkostlega saman sauðfjárbúskapinn, frá um 700 þús. fjár sem er á vetrarfóðrum að ég hygg sé nú, um það bil 700 þús., niður í 450 þús. fjár að fimm árum liðnum eða svo. Ég er ekki út af fyrir sig að leggja mat á þær ábendingar sem þarna liggja fyrir, en flest bendir til þess að um verulegan samdrátt verði að ræða í sauðfjáreign landsmanna á komandi árum. Margt mætti vissulega gera til að draga úr því og ég ætla ekki að fara að taka upp þann þráð varðandi stefnu ríkisstj. í landbúnaðarmálunum og hvað þennan þátt snertir sérstaklega. En ég tel alveg nauðsynlegt að skógverndarmálefni og reyndar skógræktina einnig þurfi að taka upp í skýru samhengi við landnýtinguna og þar á meðal beitarbúskapinn í landinu. Það sé afar brýnt einmitt á þessum vissu tímamótum, ef marka má það sem ég hef hér rakið, að virkilega verði tekið á því máli, sem allt of lengi hefur dregist, að skýra og reyna að ná samstöðu um annars konar landnýtingu í sambandi við gróðurlendi landsins en tíðkast hefur fram til þessa, að það verði gert átak í því að stilla saman gróðurverndina og hugsanlega skógrækt, eftir því sem menn meta það vænlegt og réttmætt, við breytingar í hinum hefðbundna búskap og þá ekki síst í sauðfjárræktinni. Ég tel að þetta sé stórmál fyrir sveitir landsins, stórmál fyrir bændur í landinu og ég inni hæstv. landbrh. eftir því hvaða aðgerðir séu á döfinni að þessu leyti af hálfu hans ráðuneytis og hugsanlega í tengslum við önnur ráðuneyti.

Ég hef vissulega ákveðnar hugmyndir um það og það liggja fyrir um það upplýsingar úr ýmsum áttum hvar vænlegast sé að stunda skógrækt, þ.e. ræktun til beinna nytja í landinu, og auðvitað er nauðsynlegt að líta á þau svæði alveg sérstaklega í sambandi við það átak sem réttmætt er að gera í skógrækt. Þar fyrir utan er síðan skógverndarþátturinn sem fellur saman við almenna gróðurverndarstefnu og útivistarmálefni og þar er einnig misjafnlega ástatt eftir einstökum svæðum í landinu.

Alþingi samþykkti ekki fyrir löngu, ég hygg tveimur árum eða þremur, þál. um gerð landnýtingaráætlunar. Ég vænti þess að því starfi sé langt komið, að vinna a.m.k. frumdrög að slíkri áætlun. Gott væri ef hæstv. landbrh. gæti greint okkur frá stöðu þess máls og það auðveldaði að taka á þeim málum, málum skógverndar og skógræktar með þeim hætti, sem ég hef vikið hér að að nauðsynlegt sé. Það væri vissulega æskilegt að fá afraksturinn af því starfi, sem unnið hefur verið í framhaldi af þeirri ályktun Alþingis, hér inn á borð þingsins til athugunar í sambandi við þetta mál og fleiri, því að þarna er vissulega brýn nauðsyn að taka róttækt á málum og í ljósi annarra breytinga sem eru í gangi og á meiri ferð en oft áður í sambandi við hinn hefðbundna landbúnað.

Ég gæti nefnt mörg önnur atriði, en ætla ekki við þessa 1. umr. að fara ítarlega út í þá sálma, enda ekki gefist kostur að kynna mér efni þessa frv. svo sem vert væri. Ég sé að hér er nokkurn veginn óbreytt, að ég hygg, ákvæði um Skógræktarfélag Íslands. Sá félagsskapur hefur unnið ýmislegt gagnlegt og þarflegt á liðinni tíð. Mér hefur hins vegar fundist dálítið sérkennilegt í rauninni hvernig þessi áhugafélagsskapur skógræktarmanna í landinu hefur verið settur undir - ja, hvað eigum við að segja - verndarvæng Skógræktar ríkisins með þeirri skipan sem við þekkjum og gert er ráð fyrir að framlengja hér. Ég er ekki viss um að það sé að öllu leyti farsælt fyrir félagsskap áhugamanna, eins og Skógræktarfélag Íslands á að vera og er í ýmsum greinum, að vera sett undir þá ríkisstofnun sem fer með skógræktarmálefni með þeim hætti sem tíðkað hefur verið um langt skeið. En það er nú kannske ekki stórmál í þessu samhengi þó ég nefni það hér. Ég skal ekki leggja mat á hvort þau tengsl, sem þarna hafa verið um langt skeið, hafi dregið úr virkni áhugamanna í þessum efnum, en mér er þó ekki alveg grunlaust um það. Sjálfur hef ég verið meðlimur í skógræktarfélagi um langt skeið og reynt að leggja þeim málum lið. Áhugi í þessum efnum hefur verið nokkuð sveiflukenndur. Í sumum greinum hefur vel til tekist, annars staðar blunda þessi félög og eru ekki ýkja stórtæk.

Hér er alls staðar verk að vinna fyrir áhugamenn á þessu sviði en nauðsynlegt er að tengja skilmerkilega saman almenna gróðurverndarstefnu og uppgræðslu á skógi. Ég tel að eitt af mistökum liðinnar tíðar hjá skógræktarfélagsskapnum í landinu hafi verið það að líta ekki nógu vítt á þessi efni, og þar koma til þessi tengsl við Skógrækt ríkisins og nytjaskógarstefnan, sem skógræktarfélögin og stefna þeirra hefur goldið fyrir með vissum hætti. Við vitum að tilraunir með innfluttar trjátegundir hafa gefist mjög misjafnlega, sums staðar mislukkast vegna þess að ekki hefur verið nógu vel að verki staðið. Menn hafa lagt of lítið upp úr hinum innlenda gróðri og þýðingunni sem almenn verndun hans fyrir beit getur haft til þess að ná upp kjarrlendi til útivistar og yndisauka. Um þetta ætla ég hins vegar ekki að fjölyrða frekar hér.

Það eru sem sagt ýmis atriði, herra forseti, í þessu lagafrv. sem gefa tilefni til athugunar þessara mála, og þar legg ég ríkasta áherslu á þetta: Að tekið verði skipulega á skógverndarmálunum og skógræktarmálunum í tengslum við breytingar í hefðbundnum búskap. Og síðan hitt: Fjárveitingar til þessara mála hafa verið skornar mjög við nögl á undanförnum árum. Það skiptir gífurlega miklu máli að vel sé staðið að þeim áformum sem gert er ráð fyrir í þessum efnum. Skógrækt skilar ekki efnahagslegum ávinningi fyrr en að löngum tíma liðnum. Hér er því um að ræða fjárfestingu sem vel þarf að vanda til. En að mínu mati hefur allt of litlu fjármagni verið veitt til þessara þátta á undanförnum árum þannig að sumar af þeim plöntum, sem aldar hafa verið upp í skógræktarstöðvum í landinu, hafa ekki komist í mold þar sem æskilegt hefði verið og nauðsynlegt til þess að þær gætu dafnað og upp vaxið af þeim þeir skógar til nytja og yndisauka sem að er stefnt með þessari starfsemi.

Ég vil áður en ég lýk máli mínu nefna það, herra forseti, að skipuð var af hálfu forsrn. og raunar ríkisstjórnar fyrir tveimur árum síðan sérstök nefnd, ætli hún gangi ekki undir heitinu trjáræktarnefnd, og svo vill til að ég á sæti í þessari nefnd sem ríkisstjórnin kom á laggirnar og forsrn. Til hennar var stofnað til að minnast 40 ára afmælis lýðveldisins. Það var tilefnið og ríkisstjórnin sem hafði þar forustu. En ég verð að gera þá játningu hér sem einn af nefndarmönnum, að það hefur afskaplega lítið farið fyrir starfi þessarar nefndar. Ég vil biðja hæstv. landbrh., vegna þess að hæstv. forsrh., sem skipaði nefndina, er ekki hér viðstaddur, að kanna hvort ekki er hægt að bæta þar eitthvað úr eða móta þá aðra stefnu í þessum málum og leggja þessa nefnd af, sem ég hef ekki orðið var við að hafi verið kölluð saman nú í bráðum eitt ár, og hafði reyndar haldið aðeins tvo eða þrjá fundi. Það er afar illa til fundið ef efnt er til nefndaskipana af ekki ómerkara tilefni en afmælis lýðveldisins að slíku sé ekki fylgt eftir með eðlilegum hætti eins og þarna er um að ræða.

Inn í Sþ. er nýkomin till. til þál. um trjárækt í þéttbýli, vissulega gott mál og þarft, en ég hygg einmitt að eitt af verkefnum þessarar nefndar hafi verið að ýta undir trjárækt í þéttbýli. Og 1. flm. þeirrar till. er einn af samnefndarmönnum mínum í umræddri nefnd. Hér þarf að standa skilvirkar að málum til þess að eitthvað spretti af þeim hugmyndum sem fram eru settar, hvort sem það er í tilefni afmæla eða vegna þess að menn ætla að reyna að ná meira upp úr íslenskri mold heldur en þar dafnar nú. Á því er vissulega mikil þörf. Og við vitum af fenginni reynslu á þessari öld að árangurs er að vænta ef rétt er að staðið.