19.03.1986
Neðri deild: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3213 í B-deild Alþingistíðinda. (2809)

343. mál, skógrækt

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég þakka þær undirtektir sem þetta frv. hefur fengið. Að sjálfsögðu hlýtur Alþingi að taka það til athugunar og ég mun fagna því ef það telur að því megi breyta eitthvað til bóta náist samstaða um slíkt sem geti orðið skógrækt í landinu til framdráttar.

Vegna fsp. hv. 5. þm. Austurl. um viðhorf mitt til þess hvar þessi málaflokkur á að vera, þá er ég afdráttarlaust þeirrar skoðunar að hann eigi heima hjá landbrn. Reyndar fannst mér ýmislegt í hans máli, eða kannske flest, færa allgóð rök fyrir því. Til dæmis um það hvernig nú þurfi að tengja saman skógrækt og þá breytingu á búskaparháttum sem eru að verða. Og varðandi fsp. hans um það hvað landbrn. hafi í huga í því sambandi vil ég benda á það að landbrn. hefur unnið að því að undanförnu að gera skógræktaráætlun fyrir Laugardal, þar sem sauðfé var skorið niður fyrir fáum árum vegna riðu, en skógrækt gæti þar komið í stað sauðfjárræktarinnar. Alþingi staðfesti þessa áætlun nú í vetur við gerð fjárlaga með því að veita 1 millj. kr. til þessa verkefnis, sem byggt er á þessari áætlun, og verið er að vinna að því að hrinda henni nú í framkvæmd. Þar með tel ég að í verki sé komin fram stefnumörkun í sambandi við það mál um vilja ráðuneytisins til þess að tengja þetta sem best saman.

Frumdrög að landnýtingaráætlun eru að verða tilbúin. Nefnd sú, sem skipuð var til þess að vinna að þeim málum, hefur unnið mjög vel og aflað mikilla gagna. Ég vonast til þess að nú alveg á næstu dögum komi frá nefndinni grg. um þessi mál. Þar er m.a. vikið að skógrækt og skógræktarmöguleikum og ætti sú vinna sem þar hefur verið unnin að auðvelda mönnum að gera sér grein fyrir því hvar best er að vinna að henni hér á landi.

En mig langar svo aðeins að bæta einu við sem ég tel að sé glöggt dæmi um það hversu æskilegt er að skógræktin sé áfram á vegum landbrn., en það er sá samstarfssamningur sem gerður hefur verið milli Norðurlanda um landbúnað og skógrækt. Ég hef nýlega rætt: við skógræktarstjóra um viðhorf hans til þess samstarfs og hann telur að sá árangur sé alveg ómetanlegur sem þegar er orðinn af því samstarfi sem komst á milli Norðurlandanna vegna samstarfs landbúnaðarráðherra og landbúnaðarráðuneyta í þessum löndum. Við vonumst því til þess að í framtíðinni verði margfaldur árangur af því samstarfi fyrir íslenska skógrækt og íslenskan landbúnað.

Vegna fsp. um starf nefndar sem forsrh. skipaði vil ég að lokum aðeins víkja að því að e.t.v. hefur þarna ekki verið alveg rétt ályktað af þeim skógræktarmönnum, sem óskuðu eftir því að þessi nefnd yrði skipuð á vegum forsrh., úr því að það hefur ekki borið meiri árangur en þetta. E.t.v. hefði verið heppilegra að skógræktarmenn hefðu snúið sér til landbrn. og óskað eftir því að nefndin yrði skipuð á þess vegum. En ég skal að sjálfsögðu spyrjast fyrir um það hvað líði starfi þessarar nefndar og hvort landbrn. getur eitthvað stuðlað að því að sú vinna sem þar er unnin beri árangur. Ég mun svo ekki frekar fjölyrða um þetta að sinni.