19.03.1986
Neðri deild: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3217 í B-deild Alþingistíðinda. (2813)

285. mál, lögverndun á starfsheiti kennara og skólastjóra

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þetta frv. og láta það koma fram að ég tel að hér sé hið merkasta mál á ferðinni og eðlilegt sé að koma til móts við kennara með lögfestingu þessa frv. Þetta er gamalt baráttumál kennarastéttarinnar sem sjálfsagt er að koma til móts við.

Í sjálfu sér er eftirsóknarvert að efla menntun kennara og skv. bráðabirgðaákvæði í frv. er ekki tekinn réttur af neinum, þar sem leyfi skv. 1. gr. má enn fremur veita þeim sem ekki uppfyllir skilyrði þessarar greinar en hefur verið skipaður í kennarastöðu eða skólastjórastöðu fyrir gildistöku laga þessara.

Einingafjöldi hvað varðar uppeldis- og kennslufræði kann að vera álitamál. Ég er ekki tilbúinn að fullyrða að 30 einingar séu einmitt sá rétti mælikvarði. Sumir þurfa áreiðanlega miklu meira en 30 einingar til að verða góðir kennarar, en sumir geta verið góðir kennarar þó að þeir kæmust af með færri einingar. Kennarastarfið er í sjálfu sér mjög mikilvægt og það er rétt að leitast við að efla virðingu þess. Þessi frumvarpsflutningur og lögfesting þessa frv. er þáttur í því. Það væri gaman að geta haldið kennara betur í launum, en launakerfi landsmanna hefur nú þróast á þennan veg og það er kannske erfitt að hrófla þar mjög mikið við.

Það hefur gengið erfiðlega að manna skólana með réttindafólki, sérstaklega í dreifbýlinu. Réttindi eru út af fyrir sig engin trygging fyrir því að kennari sé góður, en þó eru réttindi að öðru jöfnu eftirsóknarverð og rétt að hvetja þá sem ætla sér að leggja kennslu fyrir sig til að afla sér viðeigandi menntunar. Ég vil þó taka það fram að ég tel að réttindalaust fólk hafi í mörgum tilfellum unnið mjög gott starf í skólum landsins og ég þekki dæmi þess að í mínu kjördæmi eru að störfum prýðilegir kennarar þó að þeir hafi ekki fyllsta skólanám að baki.