31.10.1985
Sameinað þing: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

10. mál, nefnd til að kanna rekstur Innkaupastofnunar ríkisins

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli flm. og hæstv. fjmrh. þá lögðum við fram till. á síðasta þingi um að þessari umræddu stofnun yrði lokað. Ég taldi það nægilegt tilefni til þeirrar lokunar að sannað er að þessi stofnun hefur ekki sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögum. Hún hefur hreint og beint brotið lög. Í lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, stendur, með leyfi hæstv. forseta, í 20. gr. V. kafla:

„Að lokinni verklegri framkvæmd og úttekt skal fara fram skilamat. Í matinu skal gerð grein fyrir því hvernig framkvæmd hefur tekist miðað við áætlun. Enn fremur skal þar gerður samanburður við hliðstæðar framkvæmdir sem þegar hafa verið metnar.

Ríkisendurskoðun setur nánari reglur um fyrirkomulag skilamats og sér um það að grg. um skilamat séu lagðar fyrir fjvn. Alþingis, samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og eignaraðila.“

Skilamat hafði þá, a.m.k. þegar þessi till. var flutt, aldrei verið gert á einu einasta verkefni sem þessi stofnun hafði séð um. Ég tel með tilkomu þessa máls, sem upp komst um í sumar, enn nægilega ástæðu til hreint og beint að loka þessari stofnun þannig að ekki sé hætta á að upp komi önnur slík atvik sem þetta því enn þá er ekki tryggt að menn séu ekki hreint og beint að raká að sér fé vegna vanhæfni þessarar stofnunar.

Þessi stofnun brýtur lög enn þann dag í dag. „Innkaupastofnun ríkisins“, segir í 14. gr. laganna, með leyfi hæstv. forseta, „annast útboð verka svo og reikningshald og greiðslur vegna verka. Framkvæmdadeild innkaupastofnunar ríkisins . . . undirbýr samningsgerð . . .“. Í 17. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Við hvert verk skal framkvæmdadeild innkaupastofnunar ríkisins ráða einn eða fleiri sérfróða eftirlitsmenn eftir þörfum er hafi eftirlit með framkvæmd verksamnings.“ Það þýðir að það er þessara manna að vera ábyrgir fyrir reikningshaldi og greiðslum vegna verka eins og framkvæmd verksins sjálfs. Og ef ekki er farið að þessum reglum tel ég að þessi stofnun sé sönn að því að hafa brotið lög. Þess vegna er næg ástæða til þess að loka henni til að koma í veg fyrir að slíkt geti haldið áfram og til þess að tryggja að fjármunum skattgreiðenda sé ekki kastað út um gluggann.

Það er þess vegna að mínu viti ekki nægilegt svar af hálfu hæstv. fjmrh. að unnið sé að því að endurskoða þessa hluti og reyna að koma einhverju betra lagi eða skikki á störf þessarar stofnunar. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. tveggja spurninga.

Í fyrsta lagi: Í sambandi við ávísanagreiðslurnar sem hann nefndi vil ég að fram komi ef þessi athugun á sér stað, og helst án þess, hvort það sé rétt sem ég hef heyrt en hef reyndar ekki sönnun á, því að ég hef ekki aðgang að þeim gögnum sem nauðsynleg væru, er það rétt að opinber fyrirtæki brjóti mörg hver bankalög með þeim hætti að árita ávísanir þannig að í þann reit sem upphæðin er skrifuð í sé hún skráð með tölustöfum og á línuna þar sem skrifa á upphæðina með bókstöfum sé upphæðin rituð með tölustöfum til flýtis fyrir þá sem ávísanirnar reiða af hendi? Mér hefur verið sagt það að þetta gerist með ávísanir einmitt frá þessari stofnun. Ef svo er er þessi stofnun ekki einungis uppvís að því að brjóta lög um opinberar framkvæmdir heldur líka bankalög. Bankar eru þar af leiðandi náttúrlega líka meðsekir ef þeir viðurkenna slík skjöl. Og hins vegar vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann telji tryggt að slíkir atburðir eins og upp komst um í sumar séu ekki enn þá að gerast í þessari stofnun.