20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3224 í B-deild Alþingistíðinda. (2822)

11. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Umræðu um þetta mál var frestað síðast þegar það kom hér til umræðu. Ég tel það vera til hreinnar skammar ef Alþingi Íslendinga ætlar að veigra sér við því að taka afstöðu til þess réttlætismáls sem hér er til umræðu. Hér er verið að vísa mikilsverðu máli frá á forsendum formsins. Þær forsendur, sem beitt er til þess að vísa þessu máli frá, eru bæði léttvægar og ósannfærandi og 1. flm. þessarar þáltill. hefur þegar hrakið þær í máli sínu hér.

Samkvæmt þessari frávísunartillögu, sem heitir á máli formsins að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá, eru það rök sem styðja þá dagskrá sem afgreiðir þessa þáltill. hér nú. Það eru hvorki tilfinningar né réttlæti. Undir nál., sem tekur þessa rökstuddu afstöðu til heimilisstarfa og mikilvægis þeirra, skrifa fimm karlar. Ég tel víst að þeir séu um langan aldur og reyndar frá blautu barnsbeini þiggjendur og neytendur þeirrar lífsnauðsynlegu þjónustu sem heimilisstörf eru. Sömuleiðis tel ég víst að allir þeir hagsýslukarlar og efnahagssérfræðingar sem mæla hagsæld í íslensku þjóðfélagi í löngum skýrslum og spám á hverju ári séu líka ómældir þiggjendur þeirrar þjónustu sem heimilisstörf veita. Samt hefur þeim öllum láðst ævinlega allt frá fyrstu byrjun að geta allrar þeirrar vinnu og framleiðslu sem heimilisstörf fela í sér þegar hagsæld þjóðarinnar er mæld.

Þar fer sannarlega ekki saman hagsæld og farsæld og reyndar býst ég við að ef ætti að fara að launa öll heimilisstörf sem unnin eru, hvort sem það væri hérlendis eða erlendis, mundu efnahagskerfi þjóðfélaganna hreinlega springa. Þjóðfélögunum er haldið gangandi af mikilli ólaunaðri vinnu og nægir að nefna það dæmi, sem komið hefur fram í skýrslum Sameinuðu þjóðanna, að konur vinna 2/3 af öllum vinnustundum sem unnar eru í heiminum, en fyrir það fá þær ekki nema 1/10 hluta þeirra launa sem greidd eru fyrir vinnu.

Fram hjá þessum störfum er gengið eins og þau væru unnin af huldufólki, ósýnilegum verum og allir vísa þeir karlarnir kaleiknum frá sér og félagasamtökin þeirra líka. Er það von að konur eigi undir högg að sækja þegar þær leita réttar síns? Er það von að róðurinn sé þungur fyrir þann hluta þjóðarinnar, þau 72% sem vinna ófaglærð láglaunastörf, konurnar? Er það von að meðallaun karla séu 52% hærri en kvenna? Er það von að þau 80% kvenna eða meir sem vinna utan heimilis fái aðeins 5% í meðallaun? Er það nema von að hæstu meðallaun kvenna séu hjá 25- 44 ára ógiftum konum og samsvara meðallaunum 15-19 ára og 65- 69 ára ókvæntra karla eða 70-74 ára kvæntra karla?

Hv. frsm. allshn. Sþ. óttaðist að með því að taka afstöðu með þessari till. mundi Alþingi fara yfir landamæri sem sæmileg þykja. Hvað var Alþingi að gera hér ekki margt fyrir löngu þegar það tók afstöðu til aðgerða vegna kjarasamninga sem þó voru allir gerðir úti í bæ?

Það skiptir meginmáli í hvaða samhengi þetta mál er skoðað. Sé þetta mál skoðað í ljósi þeirrar frelsisbaráttu sem konur hafa háð í þessu landi um áratuga skeið er afstaða allshn. ekki bara óskiljanleg heldur líka forneskjuleg og full andúðar.

Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson talar um að manneskjur geti náð leikni við að sinna störfum lengi og nefndi t.d. knattspyrnu. Á launamálaráðstefnu Sjálfstfl., sem haldin var á Seltjarnarnesi haustið 1983, kom fram sú spurning til þáverandi lögfræðings Vinnuveitendasambands Íslands hvort hann gæti hugsað sér þessa hugmynd, þ.e. að greitt yrði að einhverju leyti fyrir þá starfsreynslu sem fengist hefði fyrir vinnu inni á heimilum. Og þá sagði karlinn: Ja, ég þyrfti nú að fá að sjá það heimili fyrst. - Og ég hef aldrei heyrt jafnmargar konur, ég held að þær hafi verið 300 talsins, sem allar lýstu óánægju sinni á háværan hátt umsvifalaust. Þessi maður skildi hreinlega ekki um hvað var að ræða. Hann skildi það ekki.

Hv. þm. talaði um sjóndeildarhring Kvennalistans. Og ég spyr aftur: Skilur ekki hv. þm. fordæmisgildið sem slíkt skref mundi gefa, fordæmisgildið fyrir frelsisbaráttu sem er mannréttindabarátta, - því að konur eru menn ekki satt - það fordæmi sem samningar við opinbera starfsmenn gefa öðrum aðilum vinnumarkaðarins? Menn eru e.t.v. í raun ekki að takast hér á um skoðanir, en menn eru sannarlega að takast á um pólitískan vilja og hvert einasta skref í réttinda- og frelsisbaráttu kvenna hefur kostað átök við karla, þá karla sem réðu, og um pólitískan vilja þeirra.

Ég ætla að fá að vitna til, með leyfi forseta, hluta af umræðu sem fór hér fram 1949 á hinu háa Alþingi. Þá var verið að berjast fyrir því að konur fengju greidd sömu laun og karlar fyrir hvers konar embætti, störf og sýslanir, hvort sem er í þjónustu hins opinbera eða þjónustu atvinnulífsins. Þá sagði þm. Hannibal Valdimarsson sem bar fram þessa till.:

„En þar sem skórinn kreppir allra mest að er á hinu fjárhagslega sviði, en á því sviði hafa konur langt frá því jafnrétti við karla. Það kann sumum að finnast, að það sé ekki svo mikið. En það var ekki mikið annað, sem á skorti hjá Íslendingum í viðskiptunum við Dani en að okkur skorti fjárhagslegt sjálfstæði, og er þeir höfðu fengið það var eins og allt leystist hér úr læðingi. Á sama hátt er ég sannfærður um að mörg öfl mundu losna úr læðingi hjá konunum ef þær fengju fullt fjárhagslegt sjálfstæði. Danir áttu erfitt með að skilja að þetta stæði okkur fyrir þrifum og nú eru til karlmenn sem skilja ekki að þetta er nauðsynlegt fyrir kvenfólkið.“

Þetta var 1949. Og þá fengu karlar 50 kr. fyrir að syngja við jarðarfarir, en konur fengu bara 30 kr. Kvenröddin var ekki meira virði en það.

Það var lagt til að þessu máli yrði vísað til ríkisstj. af því að menn treystu sér ekki til að taka á því hér inni á þinginu. Og áfram fæ ég að vitna, með leyfi forseta:

„Ég er þess vegna hræddur um að þeir sem leggja til að þessu máli verði vísað til stjórnarinnar búi því þar gröf í næstu þrjú eða fjögur ár, þó að þeir telji sig vini málsins. Ég verð að segja það, að hefði málið fjallað um hlutafélög, þá hefði hv. þm. Barðstrendinga ekki talið það svo óvíst og óljóst að vísa yrði því til stjórnarinnar.

Og mér er nær að halda að ef það hefði fjallað um skuldir og innheimtu, þá hefði lögfræðingurinn í nefndinni, hv. þm. Seyðfirðinga, þóst kunna skil á því, og ef það hefði fjallað um kýr hefði hv. þm. Norður-Múlasýslu talið sig vita það mikið, að hann hefði ekki lagt til að því væri vísað til stjórnarinnar. En þetta mál, sem fjallar um konur, er svo undarlegt að jafnvel lögfræðingurinn stendur ráðþrota. Ég held að þeir viti meira en þeir vilja vera láta, a.m.k. lögfræðingurinn.“

Og síðan stendur áfram: „Frv. fer ekki fram á annað en að konur fái jafnan þegnrétt á við karlmenn.“ Síðan var málið fellt, hv. þm., og fjmrh. þáv., sem hét Jóhann Jósefsson, sagði og gerði grein fyrir sínu atkvæði, ef ég má vitna aftur til þess, með leyfi forseta: „Herra forseti“, sagði hann. „Mér finnst nú að þótt mörg mál hafi verið kölluð krypplingar hafi ekkert verið það jafnmikið og þetta. Ég treysti mér ekki til að setja þennan kryppling á og segi því nei.“

Þannig fóru þeir að 1949 til að varna því að konur fengju jafnhá laun og karlar. Og hvers vegna gerðu þeir það? Og hvers vegna á að reyna að stöðva þetta mál núna með einhverjum hætti? Af því að það komi ekki Alþingi við. 51 karli og 9 konum komi það ekki við hvort heimilisstörf, sem við öll höfum þegið frá blautu barnsbeini, séu metin til þeirra verðleika að þau séu launuð að einhverju leyti þegar út á vinnumarkað kemur. Ég ansa þessu ekki. Þetta er fyrirsláttur. Og ef síðan á að nota þá aðferð við að drepa þessu máli á dreif að bera fram ótal brtt. sem hver verður látin fella aðra, þá segi ég: Skammist þið ykkar, skammist þið ykkar, og þið eigið ekki skilið að verða kosnir hingað inn aftur. Það segi ég.

Ég vil minna ykkur á, góðir samþingsmenn, að réttindabarátta kvenna hefur aldrei verið fyrirhafnarlaus. Það hefur um aldaraðir vantað pólitískan vilja, og pólitískan vilja hverra, til þess að leyfa konum að njóta virðingar og launa fyrir framlag sitt til samfélagsins? Nú er spurningin: Hve margir ykkar hér ætla að standa í vegi fyrir því að heimavinnandi konur fái lágmarks- - ég endurtek - lágmarksviðurkenningu fyrir framlag sitt þegar þær síðan fara út á hinn almenna vinnumarkað? Það mun verða tekið mjög vel eftir því hvernig atkvæði skipast í þessu máli.