20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3238 í B-deild Alþingistíðinda. (2827)

11. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það er ekkert undarlegt þó að mikil umræða hafi orðið um þessa till. til þál. og afgreiðslu hv. allshn. á henni. Bæði er um að ræða mjög viðkvæmt mál og réttlætismál, en hreint ekki einfalt í framkvæmd.

Þung orð hafa fallið í hita umræðnanna í garð þeirra se;m undirrita nál. Hv. 11. þm. Reykv. vildi í máli sínu um daginn tengja það skoðun allra þm. stjórnarliðsins á málinu og nú áðan notaði hv. 3. landsk. þm. þung áfellisorð í garð þingheims vegna þess að fluttar hafa verið brtt. við málið sem væri ætlað að fella það. Ég vil benda henni á að 1. flm. sjálfrar þáltill., hv. 11. þm. R.eykv., stendur sjálf að flutningi á brtt. Varla er það í þeim tilgangi að fella málið? Fremur vil ég trúa því að það sé gert til að leysa það eða í sama tilgangi og aðrar brtt. eru fluttar af öðrum hv. þm.

Ég hef út af fyrir sig samúð með reiði hv. þm. Kvennalistans vegna afgreiðslu allshn. á málinu sem ég tel óheppilega og get ekki greitt atkvæði mitt. Þess vegna er ég meðflm. að brtt. með hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, en henni var vissulega ætlað að finna lausn á þessu máli. Eins og fram kom í hans máli áðan hefur sú brtt. verið dregin til baka, en í staðinn flutt sérstök till. til þál. um sama efni.

Ég vísa á bug fullyrðingum um að þm. hafi ekki skilning á þessu máli. Ég leyfi mér meira að segja að trúa því að í hjarta sínu séu nefndarmenn sem undirrituðu nál. sammála því að það sé réttlætismál að ólaunuð heimilisstörf verði metin til starfsreynslu þar sem því verður við komið og við á, þ.e. við sambærileg störf. Það hefði verið nál. til málsbóta ef stuðningur við málstaðinn hefði fylgt með, en því miður kom það ekki fram.

En þáltill. hv. þm. Kvennalistans er að mínu mati of þröng, eins og hér hefur komið fram í máli fleiri hv. þm., þar sem hún tekur aðeins til opinberra starfsmanna eða kjarasamninga BSRB. Það mætti þá spyrja: Hvers ættu þeir eða þær að gjalda sem leita starfa á hinum almenna vinnumarkaði?

Eins og ég sagði áður er hér um að ræða víðtækt og viðkvæmt réttlætismál. Við megum ekki gleyma því að þegar t.d. konur í láglaunahópunum flytjast milli starfsgreina fá þær ekki fyrri störf metin til starfsreynslu. Þær verða að byrja á núlli ef þær flytjast í ný störf. Þetta hefur mér verið tjáð og ég tel að það sé rétt. En ég legg áherslu á að þegar um hliðstæð störf er að ræða ætti starfsreynsla við ólaunuð heimilisstörf að sjálfsögðu að vera metin.

Því má skjóta hér inn að í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum þarf viðhorfsbreyting, áhugi og skilningur aðila vinnumarkaðarins að koma til. Það eru fyrst og fremst þeir sem geta breytt þessu. Það eru þeir aðilar sem setja viðmiðunarreglurnar um röðunina í launaflokka. Ef þeirra skilningur væri fyrir hendi stæðum við ekki þessa dagana á hv. Alþingi og deildum í þessu máli sem við væntanlega erum öll í hjarta okkar sammála um að þurfi að leiðrétta og laga.

Það væri freistandi að fara nánar út í þessi mál við þessa umræðu en ég held að ég láti mínu máli lokið nú, herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kvennalistans fyrir að flytja þetta mál þó að ég sé ekki sammála till. eins og ég sagði áðan, tel hana vera of þrönga. En meginatriðið er að það takist að finna farsæla lausn á þessu máli.