20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3243 í B-deild Alþingistíðinda. (2830)

11. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir stuðningi við þetta mál, en ekki þá till. til þál. sem liggur fyrir á þskj. 11 og skammast mín ekkert fyrir það. Ég tel að sú till. til þál. sé engan veginn þannig úr garði gerð að unnt sé að samþykkja hana óbreytta og eins og komið hefur fram í allan dag virðist ekki vera nokkur manneskja hér inni sem ekki er tilbúin til að vinna þessu máli framgang.

Ég vil hins vegar leyfa mér að gagnrýna það að nefndin hefði e.t.v. átt að fjalla betur um þetta mál. Ég hef svo sem ekki mikil efni á að segja það þar sem enginn frá Alþb. virðist hafa komið nálægt afgreiðslu þessa máls.

Nú liggur fyrir á hinu háa Alþingi önnur till. til þál., eins og kom fram í máli hæstv. heilbr.- og trmrh., og það er auðvitað sjálfsagt að um þessi mál sé fjallað bæði í einu. Ég vil því, herra forseti, eindregið leggja til að þær brtt., sem lagðar hafa verið fram við þetta mál, fari aftur til hv. allshn. Ég þykist vita að nefndarmenn væru fúsir til að leggja nokkra vinnu í að samræma þau sjónarmið sem komið hafa fram bæði hér í umræðum og í þeim brtt. sem fyrir liggja þannig að þinginu megi auðnast að afgreiða þetta mál á þessu þingi.

En það er auðvitað dagljóst að þetta er töluvert viðkvæmt mál. Og þetta er ekki síst viðkvæmt mál innan verkalýðshreyfingarinnar. Það er engin tilviljun að umsagnir frá verkalýðsfélögunum eru óneitanlega hálfmáttlausar. Þetta hefur verið deiluefni lengi innan verkalýðsfélaganna og kann að vera að þar gæti verulegrar íhaldssemi sem smátt og smátt er á undanhaldi.

En þetta er auðvitað hið merkasta mál og ber að reyna að koma því frá þinginu áður en því lýkur. Ég er viss um að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, formaður nefndarinnar, er fús til að taka þetta mál aftur inn í nefndina þar sem unnið yrði úr þeim till. sem fyrir liggja. Ég vil þess vegna ítreka að ég óska eftir því að málinu verði frestað og það fái umfjöllun ásamt till. til þál. sem liggur fyrir á þskj. 644 og er efnislega samhljóða.