20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3245 í B-deild Alþingistíðinda. (2832)

Deila rafeindavirkja og ríkisins

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég hef óskað eftir því að fá orðið utan dagskrár til að vekja athygli á deilu sem staðið hefur nú alllengi og til þess jafnframt að beina einni spurningu eða tveimur til hæstv. fjmrh.

Það var þannig að að kveldi föstudagsins 14. mars hættu störfum um 120 rafeindavirkjar sem starfa hjá tveimur ríkisstofnunum, annars vegar hjá Pósti og síma og hins vegar hjá Ríkisútvarpinu. Nú er svo komið, eins og hv. þm. hafa sjálfsagt orðið varir við, að úr þessu húsi er ekki lengur hægt að hringja út fyrir höfuðborgarsvæðið nema með því að nota handvirka afgreiðslu og bíða í marga klukkutíma. Það hefur orðið að gera margvíslegar breytingar á dagskrá útvarps og sjónvarps og eru nú kannske ekki hundrað í hættunni þó að þar verði einhverjar breytingar á. Hins vegar er það miklu alvarlegra mál þegar símkerfið, þetta mikilvæga fjarskipta- og samskiptakerfi, er ekki lengur til staðar ef svo má segja.

Þessi deila á sér nokkuð langan aðdraganda. Rafeindavirkjar hjá þessum stofnunum sögðu upp störfum sínum 30. sept. Þeir höfðu síðan boðað verkfall frá og með 2. janúar s.l. Þá urðu deiluaðilar ásáttir um, þar sem ráðuneytið taldi verkfallið ólöglegt, að félagsdómur tæki málið til úrskurðar. Hann dæmdi síðan verkfallið ólögmætt, en tók enga afstöðu til uppsagnanna sem tóku gildi samkvæmt því sem áður hafði um verið talað.

Nú hefur verið gert töluvert með það að þetta mál snerist um að brjóta upp nýgerða kjarasamninga. Eftir því sem ég hef haft föng á að kynna mér málsatvik snýst það alls ekki um það heldur snýst það um það að þeir 120 rafeindavirkjar sem starfað hafa hjá Pósti og síma og hjá Ríkisútvarpinu fái að vera félagar í Sveinafélagi rafeindavirkja og þar með Rafiðnaðarsambandinu eins og fjölmargir aðrir starfsmenn ríkisins eru, t.d. margir starfsmenn hjá flugmálastjórn og Landhelgisgæslu, nær allir starfsmenn á þessu sviði í raforkuframleiðslukerfinu, þ.e. hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Landsvirkjun væntanlega líka. Þetta snýst um það. Ég held að hér sé mjög alvarlegt mál á ferðinni eins og ég sagði áðan. Ég held að það sé líka mjög alvarlegt ef þessar stofnanir, Ríkisútvarpið, sjónvarp og Póstur og sími, missa mikið af þjálfuðum starfsmönnum. Ýmsir af þessum starfsmönnum eru sjálfsagt þegar í þann veginn að leita sér að vinnu annars staðar eða komnir í vinnu annars staðar. Þessar ríkisstofnanir grípa ekki þjálfaða starfsmenn upp af götunni.

Það munu vera um 150 manns á skrá hjá launadeild fjmrn. sem eru í Rafiðnaðarsambandi Íslands eins og þeir 120 starfsmenn sem hér er um að ræða vildu helst vera.

Það hefur komið fram að þessi deila er í einhvers konar hnút eða sjálfheldu. Deiluaðilar hafa ekkert talað saman síðan á mánudagskvöld í þessari viku og nú er kominn fimmtudagur. Viðgerðum hefur lítið eða ekkert verið sinnt hjá þeim tveimur ríkisstofnunum sem hér um ræðir með þeim afleiðingum sem ég hef þegar að nokkru lýst og það er að skapast mjög alvarlegt ástand. Nú veit ég að hæstv. fjmrh. hefur verið fjarverandi og þetta er fyrsti dagurinn sem hann situr á þingi um skeið. Ég vil beina því til hans hvað hann hyggist gera nú til að beita sér fyrir því að lausn finnist á þessari deilu og til að greiða fyrir því að viðræður geti hafist milli deiluaðila og hægt sé að leysa þetta mál. Ég held að þarna beri í rauninni, ef vilji er fyrir hendi, kannske ekki svo mikið á milli, aðeins ef menn fást til að tala saman. Mér skilst að það hafi verið þannig talað af hálfu ráðuneytisins áður að þegar dómur væri genginn í félagsdómi skyldi ekki standa á mönnum að ræða þetta. En eitthvað hefur þar orðið misbrestur á og því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst hann beita sér fyrir því að leysa þessa deilu sem má ekki dragast mikið lengur að leysa?