20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3246 í B-deild Alþingistíðinda. (2833)

Deila rafeindavirkja og ríkisins

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. 5. landsk. þm. að það er alvarlegt mál þegar fjarskipti truflast verulega. Nú þegar hefur orðið nokkur truflun bæði í rekstri útvarps og sjónvarps og símans af þeim sökum að stór hópur rafeindavirkja hefur lagt niður störf. Það er mikið áhyggjuefni og ég tek fastlega undir þau orð sem hv. þm. hafði um það atriði að segja. En það er rétt að það komi hér fram alveg skýrt um hvað þetta mál snýst. Rafeindavirkjar þeir sem hér um ræðir höfðu boðað verkfall í byrjun þessa árs. Þá var gert samkomulag um að skjóta ágreiningsefni um lögmæti verkfallsins til félagsdóms og með leyfi forseta segir m.a. í því samkomulagi:

„Meðan málið er til umfjöllunar í félagsdómi frestast boðað verkfall, en kemur til framkvæmda án sérstakrar boðunar nema niðurstaða félagsdóms komi í veg fyrir slíkt.“

Félagsdómur gekk í þessu ágreiningsatriði 13. mars. Það er niðurstaða félagsdóms að verkfall þetta hafi verið ólögmætt. Forsendan fyrir þeirri niðurstöðu er sú að dómurinn er þeirrar skoðunar að ekki hafi verið um að ræða uppsagnir af hálfu rafeindavirkja á réttarstöðu sinni sem opinberra starfsmanna. Uppsagnirnar voru tvenns konar. Annars vegar var um að ræða uppsögn á ráðningarkjörum án frekari skilyrða. Hins vegar var um að ræða uppsögn á ráðningarkjörum með yfirlýsingu um að ef ekki fengist samkomulag um þau atriði fyrir tiltekinn tíma skyldi skoða uppsögn á ráðningarkjörum sem uppsögn á starfi. Félagsdómur kemst að þessari niðurstöðu, með leyfi forseta:

„Samkvæmt því sem nú hefur verið sagt verður eigi talið að stefnda hafi tekist að sanna að ofannefndir félagsmenn í Sveinafélagi rafeindavirkja, sem mál þetta varðar, hafi með aðgerðum sínum, sem að framan er frá skýrt, fengið breytt stöðu sinni sem opinberra starfsmanna þannig að lög nr. 38/1954 taki ekki lengur til þeirra né heldur lög nr. 62/1985.“

Það er m.ö.o. fullkomlega ljóst af niðurstöðu dómsins að þeir aðilar sem hér um ræðir hafa ekki sagt upp störfum sínum sem opinberir starfsmenn með lögmætum hætti. Hér er því um að ræða ólögmætar verkfallsaðgerðir sem ganga í berhögg við lög og það samkomulag sem gert var milli aðila í byrjun árs. Ég harma að á þennan veg skuli hafa verið staðið að málum.

Hv. málshefjandi spurði að því hvað gera mætti til þess að greiða fyrir lausn málsins eða viðræðum. Það er rétt af því tilefni að taka fram að meðan ólögmæt verkföll standa yfir er ekki grundvöllur viðræðna við einstök stéttarfélög um það efni. Það sem þarf að gerast til þess að greiða fyrir viðræðum er fyrst og fremst að þeir starfsmenn sem hér eiga hlut að máli hefji störf á nýjan leik í samræmi við skyldur sínar sem opinberir starfsmenn þar sem þeir hafa ekki sagt upp með lögmætum hætti.