20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3248 í B-deild Alþingistíðinda. (2838)

Deila rafeindavirkja og ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram er vissulega komið í óefni að því er þetta mál varðar. Vandamál hafa hrannast upp og eftir því sem lengra líður aukast þau enn. Það mun öllum vera ljóst. Það eina sem ég vildi spyrja hæstv. fjmrh. að er hvort það eigi að skilja orð hans hér svo að hann muni á engan hátt beita sér fyrir lausn á þessu máli fyrr en að viðkomandi aðilar, sem nú telja sig í verkfalli, hafa komið til vinnu aftur. Ber að skilja hæstv. fjmrh. svo að málið skuli liggja eins og það er nú þangað til aðilar eru komnir til vinnu? Ef það er skoðun hæstv. ráðh. er í enn verra efni komið varðandi þetta mál en nú er ljóst. Ég hygg að flestir muni hlýða á svör hæstv. ráðh. um þetta efni því að þau verða að liggja fyrir.