31.10.1985
Sameinað þing: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

10. mál, nefnd til að kanna rekstur Innkaupastofnunar ríkisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þessi umræða minnir mig á sögu sem ég heyrði sem barn af þorpi vestur á fjörðum frá þeim tíma þegar fólk var almennt miklu frómara heldur en nú á sér stað. Þá gerðist það og sætti miklum tíðindum að brotist var inn í hús manns nokkurs sem hét Sigurður og stolið einhverju frá honum. Eftir það var Sigurður aldrei kallaður annað en Sigurður þjófur.

Það sem hér er að gerast er það að segja má að gengið sé í sjóð Innkaupastofnunar ríkisins og síðan óskað eftir því að rannsóknin fari fram hjá stofnuninni sem er þarna komin í hlutverk Sigurðar þjófs.

Í sjálfu sér er mjög eðlilegt að gerðar séu harkalegar athugasemdir eins og gerðar eru í þessari till. til þál. um það hvað hér hefur gerst. En svo vel vill til að einmitt á þessu sviði eru nefndir þingsins þannig að þær eiga einna auðveldast með að framkvæma rannsókn eins og þá sem hér er gerð till. um án þess að fram þurfi að fara sérstök samþykkt um það á þingi. Og þar á ég að sjálfsögðu við þá sérstöku aðstöðu sem fjvn. hefur í þessu sambandi. Fjvn. hefur m.a. sér til aðstoðar hagsýsluna sem á einmitt að svara spurningum og gera úttektir eins og þær sem bent er á í þessari till. Og það er mjög eðlilegt, eins og málum er háttað, að þessi ósk sem till. til þál. er gerð um, þ.e. að skoðun sé látin fram fara á rekstri Innkaupastofnunar ríkisins og fengin sé umsögn óhlutdrægra aðila um þau mál, það er mjög eðlilegt að þessi ósk verði þá sett fram á fundi fjvn. og þess óskað að hagsýslan og fjmrn. láti þessa athugun fram fara og skili um það áliti, annaðhvort skriflegu eða munnlegu, til fjvn. sem er þá að sjálfsögðu skjal eða plagg eða niðurstaða sem liggur fyrir þinginu öllu.

Herra forseti. Þetta er ekki hægt að gera í öðrum nefndum en fjvn. og þess vegna þarf yfirleitt um slíka hluti sérstakar afgreiðslur á þinginu til að svona rannsóknarverkefni megi við koma, en vegna sérstöðu fjvn. er hægt að gera þetta í gegnum hana án þess að til þurfi að koma atbeini Alþingis með þeim hætti sem í tillgr. þessari er gert ráð fyrir.