20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3249 í B-deild Alþingistíðinda. (2840)

Deila rafeindavirkja og ríkisins

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég verð enn að taka það fram að það segir alveg skýrt í niðurstöðu dómsins undir fyrirsögninni „Álit dómsins og niðurstaða“, með leyfi forseta:

„Samkvæmt því sem nú hefur verið sagt verður eigi talið að stefnanda hafi tekist að sanna að ofannefndir félagsmenn í Sveinafélagi rafeindavirkja, sem mál þetta varðar, hafi með aðgerðum sínum, sem að framan er frá skýrt, fengið breytt stöðu sinni sem opinberra starfsmanna þannig að lög nr. 38/1954 taki ekki lengur til þeirra né heldur lög nr. 62/1985.“

Þetta er alveg ótvíræð niðurstaða dómsins undir fyrirsögninni „Álit dómsins og niðurstaða“.

Varðandi fsp. hv. 3. þm. Vestf. get ég aðeins endurtekið það, sem ég hef sagt áður, að það er ekki unnt að eiga kjarasamningaviðræður við aðila sem eru í ólögmætu verkfalli. Annað hef ég ekki um þetta atriði sagt eða um þær ráðstafanir sem gera þarf til að halda uppi eðlilegri fjarskiptaþjónustu. Það eina sem ég hef sagt er þetta: Það er ekki hægt að hafa frumkvæði að kjarasamningaviðræðum við aðila sem eru í ólögmætu verkfalli. Það veit ég að hv. þm. skilur mætavel.