20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3249 í B-deild Alþingistíðinda. (2841)

Deila rafeindavirkja og ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Auðvitað geta menn lagt mismunandi skilning í kjarasamningaviðræður. Spurningin er þessi: Ætlar hæstv. fjmrh. að koma af stað umræðum sem geta leitt til kjarasamninga, sem geta leitt til niðurstöðu í þessu máli? Ég hygg að það sé öllum ljóst, og ekki ætti það að vera síst hæstv. fjmrh. ljóst, að ef þessu deilumáli heldur áfram verður enn þá erfiðara að leysa það eftir því sem lengra líður. Það kannast hæstv. fjmrh. við úr fyrri störfum að eftir því sem lengra líður verður erfiðara um lausn. Ætla menn kannske að bíða þangað til allt fjarskiptasamband er komið í hnút?

Ég hygg að stjórnvöld geti ekki skellt skollaeyrum við þessu ástandi. Þau verða að hafa frumkvæði að viðræðum sem geta leitt til lausnar. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. ætli sér það þó hann gefi kannske ekki um það beinar yfirlýsingar hér í umræðunum á Alþingi. Ég vil a.m.k. vona að hann beiti sér fyrir að kjarasamningar geti komist af stað sem leiði til lausnar.

Ólafur Þ. Þórðarson: Herra forseti. Það er nýbúið að samþykkja heildarkjarasamninga í þessu landi. Það blasir einnig við að ef ríkisvaldið gengur frá heildarkjarasamningum við meginþorra landsmanna en tekur svo ákvörðun um að ganga frá betri samningum við fámenna starfshópa er verið að brjóta niður þá möguleika að ná heildarsamningum. Þá er verið að ýta undir að hóparnir fari ekki saman að samningaborði heldur að hver hópur fyrir sig reyni að komast jafnlangt og hann kemst með aðgerðum. Ég tel þess vegna að hæstv. fjmrh. sé í mjög vandasamri stöðu þessa stundina. Mér er ljóst að það verður að leita leiða til lausnar á þessu máli, en því mættu menn gera sér grein fyrir að verði ákvörðun tekin, þegar nýbúið er að gera heildarkjarasamninga, um að verðlauna í samningum þá sem ekki vilja una hliðstæðum samningum eru menn að sprengja allt samkomulag upp í þessu máli og þá eru menn raunverulega að ráðast á þá verkalýðsforingja sem unnu að því af heilindum að ná niðurstöðu í viðkvæmum deilumálum. Þá er verið að veita þeim hópum lið sem hafa haldið því fram að heildarkjarasamningar séu rangir, það eigi hver hópur að berjast og semja fyrir sig.

Ég hef lengi horft á kjaradeilur á Íslandi og séð hvernig þær þróast. Höfuðreglan hefur verið sú að láglaunahóparnir, þeir sem minnst hafa fengið, hafa verið látnir setjast að samningaborði og við fjöldann hefur verið samið. Svo hafa aðrir hópar komið á eftir með ýmsa starfsmenntun og farið fram á meira. Þannig hefur launabilið í þjóðfélaginu stöðugt verið vaxandi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta langt mál, en ég undirstrika að ég tel að fjmrh. sé í erfiðri stöðu í þessu máli og ég sé ekki að hann eigi auðvelt með að taka upp samningaviðræður við aðila sem eru í ólöglegu verkfalli.