20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3251 í B-deild Alþingistíðinda. (2845)

340. mál, nýting mjólkur í matvælaiðnaði

Flm. (Jóhanna Leópoldsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 623 er till. til þál. sem ég hef leyft mér að flytja. Hún er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna hvernig nýta megi mjólk og mjólkurvörur í auknum mæli í innlendum matvælaiðnaði í stað innfluttra mjólkurafurða.“

Herra forseti. Nýlega hefur hæstv. landbrh. sett reglugerð um stjórn á mjólkurframleiðslu. Skv. henni á að draga svo mjög úr mjólkurframleiðslu strax á þessu ári að maður spyr ósjálfrátt sjálfan sig: Hafa þessir menn aldrei komið í sveit? Það getur ekki verið, a.m.k. aldrei í fjós. Þrátt fyrir mikla vélvæðingu í landbúnaði á síðustu árum, rörmjaltakerfi, súgþurrkun og heydreifikerfi, svo eitthvað sé nefnt, er ekki kominn sjálfvirkur stýribúnaður á kýr.

Skv. opinberum tölum var mjólkurneysla Íslendinga um 98 millj. lítra á síðasta ári en framleiðslan stefnir í um 116 millj. lítra á þessu ári. Nú er mikill vandi á ferð, sögðu menn. En ég held því fram að ársneysla sé miklu meiri. Mjólk og reyndar ýmsar aðrar landbúnaðarvörur flæða inn í landið undir heitinu iðnaðarvara. Brauðbætiefni, sem í er notuð mikil mjólk, er aðeins eitt af mörgu. Í þeim er einnig eggjaduft en síðan er eggjum hent hér á landi. Ég hef sérstaka trú á framleiðslu brauðbætiefna vegna þess að um mikið magn er að ræða og markaðssetning ætti að vera auðveldari en á þurrmjólk sem setja þarf í neytendaumbúðir svo sem barnaþurrmjólk og þurrmjólk í kaffi og te sem vonandi kemur síðar.

Þurrmjólk er nú þegar mikið notuð í matvælaiðnaði, t.d. í ísgerð, kjötvinnslu og sælgætisiðnaði, svo eitthvað sé nefnt. Sælgætisiðnaðurinn hefur hins vegar óskað eftir fjölbreyttari afurðum og má þar nefna sykrað mjólkurþykkni, þurrkaða mysu sem nota má í karamellur og annað sælgæti, einnig laktósu í sykursnautt sælgæti, en það efni er unnið úr mjólk. Ég vil telja upp nokkur önnur matvæli sem innihalda mikla mjólk, t.d. búðinga, frómas, súpur, fiskbúðinga. Þurrkuð kartöflustappa í pökkum er mikið notuð í mötuneytum stofnana, skóla og sjúkrahúsa. Í henni eru auk mjólkur kartöflur og egg.

Það hafa aldrei þótt mikil búhyggindi að henda því sem heimafengið er, taka síðan lán og kaupa eitthvað annað í staðinn. En það er einmitt það sem við nú gerum, söfnum erlendum skuldum. Viðskiptahallinn er mikill. Því hefur oft verið haldið fram að markaður hér væri of lítill. Ég held hins vegar að við séum of fá og smá til að leyfa okkur óráðsíu með verðmæti.

Á liðnum árum hafa verið höfð stór orð um hátækni og líftækniiðnað þar sem hluti af verðmætasköpun væri hugvit, þekking og tækni. Ef mönnum er hins vegar sagt að úrvinnsla landbúnaðarafurða sé háð þekkingu og mikilli tækni gefast menn upp. Hafa menn ekki skilið sjálfa sig? Ég vil taka fram, svo ekki valdi neinum misskilningi, að hér er ekki um neina árás á menn að ræða af minni hálfu heldur vil ég reyna að stuðla að lausn vandamála landbúnaðar og úrvinnslugreina hans. Ég bið því hæstv. landbrh., sem því miður er fjarverandi, og hv. þm. að opna augu og eyru en ekki loka.

Þegar arðsemi hefur verið athuguð á úrvinnslu land búnaðarafurða á undangengnum árum hefur t.d. verið gert ráð fyrir því að söluskattur sé greiddur af öllum vélum sem nauðsynlegar teljast. Aftur á móti eru þær vélar, sem keyptar eru til samkeppnisiðnaðar, ekki söluskattsskyldar. Auðvitað er vinnsla á mjólk í matvælaiðnaði samkeppnisiðnaður og þess vegna er ekki um annað að ræða en að breyta reglunum. Ef það er ekki hægt þarf að breyta fyrirtækjunum í iðnaðarfyrirtæki. Þetta er eitt af því sem valdið hefur að ekki er haldið áfram.

Ég vil nefna hliðstætt dæmi. Ef skeflir fyrir útidyrnar heima hjá mér og ég hef ekki skóflu og/eða tíma til að moka frá þeim, til að koma mér inn eða út eftir atvikum, þá nota ég bara bakdyrnar og gluggana ef ekki vill betur, ég stend ekki úti og frýs í hel.

Til að afla mér upplýsinga um núverandi nýtingu á þurrmjólk og aukna möguleika á nýtingu mjólkur í matvælaiðnaði hef ég haft samband við marga aðila, m.a. Framleiðsluráð, mjólkurbú, sælgætisgerðir, kjötvinnslu, bakarí og marga fleiri aðila. Langflestum fannst að alls ekki væri fullreynt að nýta mjólk í matvælaiðnaði. Þar á meðal voru Jón Óttar Ragnarsson matvælaverkfræðingur, áður hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, og Rögnvaldur Gíslason deildarstjóri hjá Iðntæknistofnun sem báðir eru persónulega tilbúnir til að leggja málinu lið.

Nýting mjólkur í matvælaiðnaði er bara eitt dæmi af mörgum um hvernig betur má nýta landbúnaðarafurðir hér innanlands. Miklir möguleikar eru í frystingu grænmetis. Neysla á frystu grænmeti hefur stórlega aukist og kemur til með að aukast á næstu árum. Grænmeti er hent hér á hverju hausti. Nefna má súpu og sósukraft sem notað er bæði á heimilum og stofnunum.

Ég vil því biðja hv. alþm. að athuga sinn gang aftur áður en búferlaflutningar verða hafnir með lagaboði. Menn verða að gera sér ljóst hvílík sóun á fjármunum byggðaröskun er. Íbúðarhúsnæði og öðrum mannvirkjum er bókstaflega hent um land allt. Ég bið hv. alþm. að hugleiða að hér er ekki bara um bændabýli að ræða heldur þorp og bæi eins og Borgarnes, Egilsstaði og Akureyri. Á þessum stöðum er fólk gert eignalaust. Talið er að hvert ársverk í landbúnaði skili meira en tveim í úrvinnslu. Búferlaflutningum, sem nú blasa við, fylgja líka gífurleg félagsleg vandamál sem þekkt eru víða um heim.

Nú bið ég hv. þm. að hugleiða að betri nýting á mjólk og öðrum landbúnaðarafurðum í matvælaiðnaði kemur ekki bara bændum vel heldur þjóðarbúinu í heild. Þessi tegund hátækniiðnaðar hefur þá kosti að hún nýtir betur það hráefni og fjárfestingu sem fyrir er. Ég vona bara að menn nái áttum í þessu máli með þjóðarheill í huga.

Að lokum legg ég til að till. minni verði vísað til hv. atvmn.