20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3252 í B-deild Alþingistíðinda. (2846)

340. mál, nýting mjólkur í matvælaiðnaði

Siggeir Björnsson:

Herra forseti. Ég er ekki í stakk búinn til þess að ræða þessa till. efnislega. En ég vil aðeins fagna till. sem hér er borin fram á þskj. 623 og flutt af hv. 4. þm. Vesturl. Jóhönnu Leópoldsdóttur. Ég þakka henni fyrir að hreyfa þessu máli hér á hv. Alþingi.

Nú er mikið rætt um nýjar búgreinar og er það góðra gjalda vert. En hitt er ekki síður mikilsvert að leita nýrra leiða um úrræði varðandi hinar hefðbundnu búgreinar eins og hér er gert. Umræður um landbúnaðarmál hafa allt of oft verið neikvæðar. En með nýjum tímum koma ný viðhorf og þeim verður að mæta á nýjan hátt. Útflutningur landbúnaðarafurða, eins og stendur í dag, er nánast útilokaður í þeim mæli sem nokkru máli skiptir og niðurgreiðslur innanlands á mjólk og kjöti geta aldrei verið takmark í sjálfu sér. Hitt er annað mál að það má nota þær sem hagstjórnartæki þegar offramleiðsla er eða til að lækka þessar vörur til neytandans. Við verðum því að leita nýrra leiða og hér er vakin athygli á máli sem gæti orðið stórmál fyrir íslensku bændastéttina.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta meira. En ég vil aðeins segja að ég fagna till. og ég vil þakka hv. þm. fyrir að hafa vakið máls á þessu efni.

Umr. (atkvgr.) frestað.