24.03.1986
Efri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3257 í B-deild Alþingistíðinda. (2851)

312. mál, verkfræðingar

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég skrifa undir þetta nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari er í því fólginn að ég tel meinlaust að þessi löggilding eigi sér stað. Hins vegar tel ég ástæðu til þess að löggildingar almennt verði skoðaðar niður í kjölinn. Það er varla til sú starfsgrein á Íslandi sem ekki nýtur löggildingar ríkisins. Ég tel þetta ranga þróun. Ég tel að starfsstétt eða einstaklingar innan hennar eigi að njóta sinnar hæfni, kunnáttu og menntunar þegar þeir bjóða fram sín störf án þess að ríkið þurfi að koma til með lögverndun. Oft og tíðum virkar slík lögverndun sem takmörkun á starfsréttindi annarra og ég veit ekki til þess að það sé dæmi um það í hinum iðnþróaða heimi að löggildingar séu svo almennar sem er hér á landi. Mér er t.d. ekki kunnugt um að það sé í Bandaríkjunum og það er mjög takmarkað á Norðurlöndum, í Frakklandi, Þýskalandi og öðrum löndum sem við viljum gjarnan jafna okkur við.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, en tel ástæðu til þess að því verði gefinn gaumur á næstunni að löggildingum verði frekar fækkað en fjölgað. Hins vegar endurtek ég að ég tel meinlaust að þessar starfsstéttir fái löggildingu fyrst þetta fár hefur riðið svo yfir sem raun ber vitni, en tel þessa þróun í meginatriðum ranga.