24.03.1986
Efri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3270 í B-deild Alþingistíðinda. (2858)

339. mál, sjóðir atvinnuveganna

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessa umræðu mjög, en mér sýnist það blasa mjög skýrt við að hér er um að ræða frv. sem var lagt fram í fyrra og reyndist meingallað þegar farið var að skoða það í nefnd, margar athugasemdir við það og mikill ágreiningur um málið.

Nú er þetta frv. lagt hér aftur fram þegar mjög skammt er eftir þingsins. Það er enn ljóst að mikill ágreiningur er um málið. Það hefur komið fram hér að þetta er síður en svo neitt samkomulagsmál milli stjórnarflokkanna og hæstv. forsrh., sem málið leggur fram, er einungis að fullnægja ákvæði sem er í stjórnarsáttmála þessara flokka. Það hafa ekki verið leidd rök að því hér, a.m.k. ekki óyggjandi rök að mínu mati, að þessi breyting, sem hér er ráð fyrir gert að nái fram að ganga, sé að öllu leyti til bóta. Milli stjórnarflokkanna er ágreiningur um málið þannig að ég sé ekki að ástæða sé fyrir þessa hv. deild að eyða mjög löngum tíma í þetta, sérstaklega þegar það bætist nú við að hæstv. forsrh. hefur látið þau orð falla hér að það sé ekki líklegt, og hann leggi ekki á það höfuðáherslu, að þetta mál verði afgreitt á þessu þingi. Ég held því að það sé ekki rétt að tefja fyrir því með neinum hætti að þetta mál gangi sem fljótast til nefndar og fái þar að sofna eins og það sýnilega mun gera.