24.03.1986
Efri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3271 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

105. mál, hitaveita Reykjavíkur

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur tekið til meðferðar frv. það sem hér er til umræðu. Leitaði nefndin umsagnar m.a. Hitaveitu Reykjavíkur og Sambands ísl. hitaveitna. Hvorki Hitaveita Reykjavíkur né Samband ísl. hitaveitna hafa neitt við þetta frv. að athuga og eru efnislega meðmælt því.

Nefndin leitaði og álits Sambands ísl. rafveitna og Landsvirkjunar en fékk ekki í hendur neitt álit frá þessum aðilum.

Það er till. nefndarinnar að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Efni þessa frv. er í fyrsta lagi að breyta því sem stendur í lögum um Hitaveitu Reykjavíkur, þar sem talað er um „bæjarstjórn“, breyta því í „borgarstjórn“. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að fella niður úr lögum um Hitaveitu Reykjavíkur bein ákvæði um einkarétt Reykjavíkurborgar til starfrækslu hitaveitu. Er það gert á þeirri forsendu að þess gerist ekki þörf að hafa bein ákvæði um það vegna þess að Hitaveitan og Reykjavíkurborg hafi þetta alltaf í hendi sér. Í þriðja lagi gerir frv. ráð fyrir því að Hitaveitu Reykjavíkur sé veitt heimild til framleiðslu og sölu rafmagns, en samkvæmt lögum er slíku ekki til að dreifa.

Það er svo með öll þessi atriði, sem frv. fjallar um, að þó að ekki sé hægt að hafa á móti þeim efnislega, þá má segja að það reki ekki nauður til þess að samþykkja þessar breytingar nú þegar. Það skeður ekkert þó að það standi í lögum „bæjarstjórn“ í staðinn fyrir „borgarstjórn“. Það skeður ekkert þó að standi í lögum heimildarákvæði sem ekki hefur sjálfstæða þýðingu. Og það er ekki aðkallandi á næstunni að veita Hitaveitu Reykjavíkur heimild til framleiðslu og sölu rafmagns, en hins vegar rekur að því að svo verði þegar lengra er komið fyrirætlunum að því sem Hitaveitan hyggst gera á Hengilssvæðinu og þar sem einmitt þessi starfsemi er höfð í huga.

Þá er það önnur ástæða fyrir því að nefndinni þykir ekki rétt að samþykkja frv. þetta nú, þó hún mæli með efni frv. Ríkisstjórnin er nú að láta vinna að endurskoðun laga um orkumál og það þykir eðlilegt að taka ekki þessi atriði, sem þetta frv. fjallar um sérstaklega, fyrir áður en lokið er hinni alhliða endurskoðun. Og með því að það breytir í sjálfu sér engu og verður ekki að skaða að hinkra við með lögfestingu efnisatriða þessa frv., þá hefur nefndin gert það að tillögu sinni að málinu verði vísað með meðmælum til hæstv. ríkisstjórnar.