24.03.1986
Efri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3273 í B-deild Alþingistíðinda. (2866)

341. mál, sala jarðarinnar Streitis

Flm. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Að sjálfsögðu fær þetta mál sérstaka athugun í þeirri nefnd sem fær það til umfjöllunar. Auðvitað gerir nefndin eins og hún hefur fulla heimild til og fer ofan í alla þætti málsins; getur kallað þá aðila fyrir í þessu máli sem henni þykir þurfa.

Það er e.t.v. rétt að í þeim tilfellum, sem frv. sem hér um ræðir hafa verið flutt, þá hefur það verið til nytja eða lagt undir aðrar jarðir. En ég tel yfir höfuð feng að því ef menn eru fáanlegir til þess að flytja út á land og nytja jarðir, sem hefur verið staðhæft í þessu tilfelli að þessi maður muni gera. Við flm. höfum átt við þennan aðila ítarlegar viðræður og hann er áreiðanlega reiðubúinn til þess að flytja sitt mál fyrir hv. landbn. ef þess er óskað. Og ég reikna með að nefndin muni fara þá leið.

Að öðru leyti vil ég ekki orðlengja um þetta, en ég tel að ef menn vilja kaupa ríkisjarðir þá sé ekkert á móti því að selja mönnum þessar eignir - ef menn vilja kaupa þær og nytja og koma þar upp búskap. Eins og fram kemur þá á þessi aðili ættir að rekja á þessa jörð og hefur þangað taugar og hefur þrautrætt þetta mál við okkur, enda hefðum við flm. ekki flutt þetta frv. að öðrum kosti. Ég vil láta það koma fram að þetta mál hefur átt langan aðdraganda og við höfum kannað það mjög rækilega, annars hefði þetta frv. ekki verið flutt