24.03.1986
Neðri deild: 67. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3283 í B-deild Alþingistíðinda. (2879)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð við 1. umr. þessa máls.

Hér er verið að gera tilraun til að setja lög til að koma í veg fyrir að menn neyti þess lýðræðisréttar sem þeim er heimilt samkvæmt lögum. Hér kemur í stólinn hv. 3. þm. Reykv. og rekur málsatvik í launadeilu mjólkurfræðinga og síðustu framvindu þeirra mála. Þar virðist lítið bera á milli. Því rakti hæstv. landbrh. ekki þá deilu ítarlegar til þess að styðja nauðsyn þess máls sem hann ber hér fram. Ég sé engin rök fyrir því í því frv. sem hér liggur fyrir að nauðsyn beri til þess að setja lög til að skerða þau réttindi sem verkfallsréttindi eru.

Ég fer fram á að fá að sitja fundi hjá hv. landbn. beggja deilda þegar þær fjalla um þetta mál til að kynna mér þessi málsatvik betur svo að ég sé færari til að taka málefnalega afstöðu í þessu máli þar sem hæstv. landbrb. bar engin gild rök hér fram máli sínu til stuðnings.