24.03.1986
Neðri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3285 í B-deild Alþingistíðinda. (2887)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Tíminn sem hv. landbn. hafði til að setja sig inn í efnisforsendur þessa máls var í knappasta lagi og er það slæmt því að ekki hefði veitt af að nefndarmenn hefðu haft nokkurn tíma til að kynna sér innihald þessarar vinnudeilu, ekki síst í ljósi þeirra lognmollulegu framsöguræðna og þeirrar kynningar sem málið fékk við 1. umr. í hv. deild í dag. Það vakna óneitanlega spurningar í ljósi þess sem hv. 3. þm. Reykv. upplýsti við 1. umr. og kom fram og staðfest var í nefndinni og eins af hálfu frsm. hv. meiri hl. um stöðu kjaradeilunnar á síðasta samningafundi deiluaðila. En af ræðu hæstv. landbrh. í dag varð ekki skilið að aðstæður í vinnudeilunni hefðu verið með þeim hætti sem síðar kom á daginn og er það eftir öðru í málsmeðferð hæstv. ríkisstj. í þessu efni.

Nál. 1. minni hl. landbn. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. minni hl. landbn. er andvígur þessu frv. og mótmælir sérstaklega þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið af hálfu ríkisstj. og vinnuveitenda. Ljóst er að frv. hafði þegar verið samið er síðasti samningafundurinn fór fram, eins og grg. þess ber með sér. Slíkar aðstæður eru óeðlilegar með öllu við samningagerð og hljóta að leiða til ófarnaðar.

1. minni hl. er enn fremur andvígur frv. af eftirfarandi ástæðum:

1. Með samþykkt frv. væri verið að taka verkfallsrétt af stéttarfélagi án þess að á nokkurn hátt hafi verið rökstutt að aðstæður séu þannig að svo alvarleg aðgerð sé réttlætanleg.

2. Þegar síðasta sáttafundi í kjaradeilu mjólkurfræðinga og viðsemjenda þeirra lauk var krafa mjólkurfræðinga um fæðis- og flutningskostnað til samræmis við það sem ýmsir aðrir starfsmenn í mjólkurbúum hafa ein eftir. Þessari kröfu höfnuðu fulltrúar vinnuveitenda umræðulaust.

3. 2. gr. frv. er þannig orðuð að hendur kjaradóms, ef af samþykkt frv. yrði, væru bundnar og honum ekki heimilt að taka tillit til sérkrafna mjólkurfræðinga.

4. Greinargerð með frv. er villandi og að nokkru leyti beinlínis röng og allur rökstuðningur ríkisstj. fyrir lagasetningunni veikur.

Í þessari kjaradeilu hefur komið í ljós hve fráleit ákvörðun það var er mjólkursamlögin voru knúin til aðildar að Vinnuveitendasambandi Íslands. Sú ákvörðun kemur nú öllum málsaðilum í koll og skapar sérstaka áhættu fyrir afkomu bænda. Þegar við allt þetta bætist að fulltrúar vinnuveitenda virðast hafa haldið á málum af mikilli stífni í umræðum og ekki einu sinni verið til viðræðu um sérstakar samræmingarkröfur mjólkurfræðinga telur 1. minni hl. landbn. allar forsendur brostnar fyrir lagasetningu og er frv. andvígur.“

Ég vil sérstaklega leggja áherslu á það sem fyrst segir í nál. um vinnubrögð í þessu sambandi. Það liggur í hlutarins eðli, herra forseti, að það eru ekki eðlilegar aðstæður við samningagerð ef það liggur fyrir, og ég tala nú ekki um ef það fréttist til samningamanna, að tilbúið sé úti í bæ frv. um lagasetningu í viðkomandi deilu og ef það bætist enn við að það kvisist að í því frv. sé sérstaklega gert ráð fyrir kjaradómi sem skuli vinna samkvæmt ákveðnum forsendum og skuli kveða upp úrskurð innan ákveðinna tiltekinna marka sem í raun og veru kippa burtu öllum kröfum annars deiluaðilans með tölu. Ég hygg að 2. gr. þessa frv., sem hér er til umræðu, verði ekki lesin og ekki túlkuð á annan hátt en þann. Ég vitna einnig til nál. hv. 2. minni hl. landbn. í því sambandi sem er samdóma hvað þetta varðar. Þetta eru auðvitað með öllu óeðlilegar aðstæður við samningagerð og með öllu ólíðandi að hæstv. ríkisstj. hegði sér með þessum hætti.

Ég bendi enn á það ósamræmi sem er á milli fullyrðinga í grg. frv. og þeirrar stöðu sem uppi var í samninganefndunum um kl. 16 í dag þegar síðasta tilboð mjólkurfræðinga kom fram, en þá var, eins og menn ugglaust vita allir í þessum virðulega sal, búið að boða fyrir nokkru framkomu þessa frv. á Alþingi og búið að ákveða fundartíma til að taka það fyrir, sem sagt áður en síðasta tilboð mjólkurfræðinga kom fram og það var tekið til umfjöllunar við samningaborðið.

Ég vil enn fremur leggja áherslu á það, herra forseti, að hér er um samræmingarkröfu að ræða. Það kom einnig fram í hv. landbn. að mjólkurfræðingar voru til umræðu um að falla frá á móti þessari kröfu öðrum atriðum sem þeir hafa í gildandi samningum og hefðu þar af leiðandi getað létt að öðru jöfnu þær byrðar sem á atvinnurekendur hefðu lent af þessum sökum. En fulltrúar vinnuveitenda voru ekki til viðræðu, hvorki um þetta né annað, og höfnuðu þessu síðasta tilboði umræðulaust eins og áður hefur komið fram.

Ég vil enn fremur lýsa þeirri skoðun minni, herra forseti, að ég held að það sé að öllu jöfnu ekki heppilegt að hv. Alþingi sé sett upp við vegg í slíku deilumáli nema þá reynt hafi verið algerlega til þrautar. Við erum hér að fjalla um sérstaka samræmingarkröfu í samningagerð og ég spyr: Ef menn telja eðlilegt að Alþingi verji tíma sínum í að skera úr í slíkum deilumálum aftur og aftur, hvar endar þá slík þróun? Það er verið að ræða um fæðispeninga og flutningalínu í dag. Það gæti orðið sérstakt vosbúðarálag á morgun og það gætu orðið vinnufatapeningar hinn daginn o.s.frv. Er það stefna hæstv. ríkisstj. og Sjálfstfl., sem stundum kennir sig við frjálsa samningagerð, að Alþingi skuli notað sem dómstóll í slíkum sérkjaraákvæðum einstakra stétta í landinu, en það er auðvitað það sem verið er að gera með þessu frv. og sérstaklega með tilvísan til 2. gr. þess og þeirra ákvæða sem væntanlegum kjaradómi er þar gert að starfa eftir?

Síðan vil ég, herra forseti, koma að þeirri fullyrðingu, sem haldið var fram í framsöguræðu hæstv. landbrh. og af hálfu fulltrúa meiri hl. hér, að þessi samræmingarkrafa, ef að henni yrði gengið, mundi rjúfa með öllu samstöðuna um þá heildarkjarasamninga sem gerðir hafa verið í þjóðfélaginu. Í því sambandi vil ég vitna í ummæli forseta Alþýðusambands Íslands, sem höfð voru eftir honum í kvöldfréttum, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni og afstöðu að hér væri um ótímabæra og ranga aðgerð að ræða. Ég vil beinlínis halda því fram að það hafi ranglega verið gefið í skyn að aðilar vinnumarkaðarins og þar með einnig Alþýðusamband Íslands mundu telja það sem hér væri á ferðinni brot á heildarsamningalöggjöfinni ef gengið yrði að því. Ekki benda ummæli forseta Alþýðusambandsins eða það sem eftir honum var haft í kvöldfréttum til þess að það sé rétt með farið.

Ég vil einnig að það komi fram að ég taldi eðlilegt og óskaði eftir því í landbn. að fulltrúar heildarsamtaka launþega kæmu á fund nefndarinnar, en það var ekki talin ástæða til þess af hálfu meiri hl. nefndarinnar. Þetta eru slakleg vinnubrögð að mínu mati, herra forseti, og raunar ósamboðin Alþingi þegar verið er að fjalla um jafnalvarlegt mál og það er eða á a.m.k. að vera í hverju einu tilfelli að grípa inn í frjálsa kjarasamninga með lagasetningu. Sé þetta skoðað enn nánar, herra forseti, hlýtur það að vera þannig eðli málsins samkvæmt að heildarkjarasamningar þýða ekki að einstök stéttarfélög og einstök félög geti ekki á sama tíma verið með sérkröfur og samræmingarkröfur sem geta verið fullkomlega eðlilegar innan ramma þeirrar heildarsamningagerðar sem fjallað hefur verið um og þær aðstæður geta verið uppi sem gera slíkar kröfur fullkomlega eðlilegar. Þetta hljóta allir að skilja sem um það hugsa augnablik. Þar af leiðandi er sú meginröksemd fallin, sem fyrir þessu frv. hefur verið færð fram, að það stefni endilega í voða þeirri heildarsamstöðu um kjarasamningana sem orðin er.

Ég vil enn fremur mótmæla þeirri túlkun hv. frsm. meiri hl. landbn. að deiluaðilar hafi verið sammála um að ekki þýddi að reyna samningagerð frekar. Fulltrúar mjólkurfræðinga lýstu því þvert á móti sem sinni skoðun að ekki hefði verið fullreynt að ræða málin og þeir hörmuðu þau viðbrögð vinnuveitenda að hafna síðasta tilboði þeirra umræðulaust.

Herra forseti. Ég ætla þá tímans vegna ekki að hafa þessa ræðu lengri. Ég tel mig hafa lýst því að hér hafi óeðlilega verið að málunum staðið. Það hafi ekki verið fullreynt hvort leysa mætti þessa vinnudeilu með eðlilegum hætti, í fyrsta lagi með því að gefa mönnum eðlilegan tíma til að ræða þau mál og í öðru lagi með því að búa mönnum eðlilegar vinnuaðstæður. Ég tel það ekki vera þegar það liggur fyrir og þegar það hefur frést að undirbúið hafi verið lagafrv. til að úrskurða í þeirri vinnudeilu á sama tíma og menn sitja enn við samningaborðið og það lagafrv. sé jafnvel komið í prentun áður en síðasti samningafundur deiluaðila hefst.