31.10.1985
Sameinað þing: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

10. mál, nefnd til að kanna rekstur Innkaupastofnunar ríkisins

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins vekja á því athygli að hv. 1. landsk. þm. hélt því fram að í mínu máli hefði mátt skilja að sök í þessu efni væri hjá bankastofnuninni. Auðvitað ber bankastofnunin ekki ábyrgð á því misferli sem þarna á sér stað, en hún hlýtur auðvitað að bera ábyrgð á því hvaða ávísanir hún leysir inn og mitt mál verður ekki skilið á annan veg.

Í annan stað talaði hv. 8. þm. Reykv. um að glæpur hefði verið framinn í stofnuninni. Nú hefur hann sjálfur viljað draga úr styrkleika þeirra ummæla, en nauðsynlegt er vegna þessarar umræðu að það sé alveg ljóst að það misferli sem þarna átti sér stað var ekki framið í stofnuninni eða af starfsmönnum hennar. Þvert á móti er misferlið sem hér um ræðir framið af aðilum utan stofnunarinnar og þess vegna alrangt að tala um að misferli hafi átt sér stað í stofnuninni sjálfri. Og þess vegna er niðurstaða mín sú, þegar hv. 3. landsk. þm. spyr hvort rétt sé að Alþingi rannsaki þetta mál sérstaklega, að ítreka það að það hefur komið hér fram að það hafa þegar verið gerðar viðeigandi ráðstafanir til þess að styrkja innra eftirlit í stofnuninni og setja reglur til þess að koma í veg fyrir að sá dráttur verði á að menn komist að því að misferli af þessu tagi fari fram. Ég tel þess vegna að það sé þegar búið að gera þær ráðstafanir til þess að tryggja betri meðferð sem nauðsynlegt er að gera og þess vegna ekki frekari ástæða til að aðhafast vegna þessa einstaka máls. Hitt er svo annað atriði hvaða umfjöllun við gefum efnislega um hlutverk þessarar stofnunar, en það er síðari tíma umræða.