24.03.1986
Efri deild: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3299 í B-deild Alþingistíðinda. (2900)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um lausn vinnudeilu Mjólkurfræðingafélags Íslands annars vegar, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna hins vegar. Í síðasta mánuði voru gerðir almennir kjarasamningar milli Alþýðusambands Íslands annars vegar og Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna hins vegar. Þessir samningar hafa verið samþykktir af flestum stéttarfélögum sem áttu aðild að þeim. Mjólkurfræðingafélag Íslands felldi þá hins vegar og boðaði verkfall frá og með deginum í dag. Ríkissáttasemjari hefur haldið nokkra fundi með deiluaðilum, en þeir ekki borið árangur.

Ég ræddi við ríkissáttasemjara í morgun þegar verkfall var skollið á og kvað hann fundinn, sem stóð fram yfir miðnætti s.l., ekki hafa borið neinn árangur og taldi vonlaust að frekari viðræður gerðu það. Ég kvaddi þá fulltrúa mjólkurfræðinga á minn fund til að ræða þá stöðu sem þar væri komin upp og miðað við aðdraganda samninganna og þá aðild, sem ríkisstj. hefði átt að þeim þar sem reynt var að ná ákveðnum markmiðum, þá mundi vera útilokað annað en að grípa inn í slíkar deilur þegar samkomulag var ekki talið í sjónmáli. Í þeim viðræðum töldu þeir rétt að boðað yrði til nýs samningafundar og ræddi ég þá við sáttasemjara um það, sem hann gerði.

Á þessum fundi með fulltrúum Mjólkurfræðingafélags Íslands kom fram að þeir teldu að hið almenna samkomulag nægði ekki. Þá voru það tvær kröfur sem þeir settu fram, en á fundi með sáttasemjara síðdegis féllu þeir frá annarri þeirra. Eftir stóð krafa um fæðis og flutningsgjald sem í viðræðu við ríkissáttasemjara kom fram að næmi sem svaraði 4-5% launahækkun. Ekki náðist samkomulag milli deiluaðila um þetta atriði og þá var tekin ákvörðun um að flytja þetta frv. sem hér liggur fyrir.

Í hinu almenna samkomulagi er kveðið á um það að nákvæm úttekt skuli fara fram á kjörum einstakra stétta aðildarfélaganna. Undirbúningur að því er þegar hafinn og að sjálfsögðu mun það einnig ná til Mjólkurfræðingafélags Íslands þó þetta lagafrv. nái fram að ganga. Þar munu að sjálfsögðu allar sanngjarnar kröfur verða teknar til skoðunar, en, eins og ég sagði, vegna aðdraganda og stöðu þessara samningamála er það erfitt ef einstök félög fara að gera kröfur um viðbætur við hina almennu kjarasamninga. Og það kom einnig fram hjá fulltrúum verkalýðsfélaga í umræðum í hv. Nd. áðan.

Ég vænti þess að hv. deild geti hraðað meðferð þessa máls þar sem hv. landbn. beggja deilda hafa unnið saman að athugun þess.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.