24.03.1986
Efri deild: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3303 í B-deild Alþingistíðinda. (2902)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Í tilefni af orðum síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Norðurl. v., þá held ég að nauðsynlegt sé að það verði upplýst í nefndarstörfum um þetta mál hvort rétt er, sem hann sagði, að hér sé um að ræða réttindakröfu sem næstum allir launþegar, meginþorri starfsmanna á vinnumarkaðnum hafi nú þegar. Það kom ekki fram þegar fjallað var um þetta mál á sameiginlegum fundi landbn. nú milli kl. 18 og 19 í kvöld. Mér finnst það skipta máli í þessu sambandi hvort það atriði sem þessir samningar strönduðu á, fæðis- og ferðapeningar, er kjarabót sem allir launþegar eða því sem næst njóti. Það upplýsist þegar nefndin fjallar um þetta. Ég hef grun um að svo sé ekki, að það sé ekki allur þorri launþega sem njóti þeirra hagsbóta sem hér um ræðir.

Hér hafa menn viðhaft býsna stór orð og látið svo sem þetta kæmi allt mjög á óvart. Ég hygg að það þurfi engum hv. þm. að koma á óvart, með tilliti til þeirra samninga sem gerðir voru og komu til umræðu hér á þingi, og til staðfestingar með nokkrum hætti, að ekki skuli ráð fyrir því gert að samið skuli um kjarabætur sem fara langt fram úr þeim. Ég held að menn þurfi ekkert að vera hissa á því þó að gengið sé út frá því að þeir samningar séu viðmiðun, og ef í samningum við einstaka hópa eða einstök stéttarfélög er farið langt fram úr þeim samningum þá kunni það kannske ekki góðri lukku að stýra. Mér finnst það einkennilegt þegar menn láta sem þetta komi þeim mjög á óvart.

Á þeim fundi, sem ég vitnaði til hér áðan, kom fram að þessi krafa um sérstaka fæðis- og ferðapeninga væri metin á 4-5%, þ.e. tvöföld fyrsta launahækkunin í ASÍ-samningunum, eða jafnhá fyrstu launahækkuninni í ASÍ-samningunum. Þessu hefur ekki verið mótmælt. Hins vegar er það deginum ljósara, og um það er enginn ágreiningur, að það er engum að skapi að flytja frv. um gerðardóm í vinnudeilum. Það hafa þó allir flokkar látið sig hafa, þegar svo hefur borið undir, ekki síður flokkur hv. 3. þm. Norðurl. v., Ragnars Arnalds, en aðrir flokkar. Hreint ekki síður. Þess má finna mörg dæmi. Það hefur minn flokkur einnig gert. Það hafa allir flokkarnir gert þegar svo hefur borið undir og ill nauðsyn hefur að bestu manna yfirsýn gert það að verkum að menn hafa talið sig nauðbeygða til þess.

Hins vegar horfir nú kannske svolítið öðruvísi við vegna þess að hér hafa atburðir gerst nokkuð hratt. Ég held að ljóst sé að þegar fyrir lá í morgun að þetta frv. var tilbúið og prentað setti það deiluna í verri hnút en efni stóðu til. Ég fullyrði það ekki, en það er ýmislegt sem til þess bendir að ekki hafi verið fullreynt hvort ekki mætti ná samkomulagi og hvort ekki hefði verið ástæða til að doka aðeins lengur við með þessa löggjöf og freista þess að ná samkomulagi um þá einu kröfu sem eftir var.

Á fundi þeim sem ég hef hér áður vitnað til var af hálfu okkar Alþýðuflokksmanna gerð athugasemd við 2. gr. þessa frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Kjaradómurinn skal við ákvörðun kaups og kjara mjólkurfræðinga leggja til grundvallar síðast gildandi kjarasamning Mjólkurfræðingafélags Íslands og vinnuveitenda og þær launa- og kjarabreytingar sem almennt hefur um samist á vinnumarkaði frá því kjarasamningar urðu lausir hinn 1. janúar 1986.“

Við orðuðum hugsanlega brtt. við þetta þannig að ekki væri aðeins ákveðið, eins og hér er nú, að þetta fari í kjaradóm og það er ákveðið hver skuli vera niðurstaða dómsins, þannig að þetta væri a.m.k. aðeins opnara í lögunum. En á því var ekki léð máls. Við vildum að kjaradómurinn hefði svigrúm til að meta þessi launakjör með hliðsjón af þeim kjörum sem um hefur samist hjá öðrum hliðstæðum starfsstéttum í þjóðfélaginu. Því var hafnað á þessum fundi. Það er skoðun okkar Alþýðuflokksmanna að úr því sem komið er sé eðlilegast og réttast að ríkisstj. ein beri ábyrgð á þeirri lagasetningu sem hér um ræðir. Við munum þess vegna ekki greiða atkvæði þegar þetta mál kemur hér til atkvæða, en sjáum ekki ástæðu til að tefja fyrir framgangi málsins. Við munum sem sagt sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.