24.03.1986
Efri deild: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3304 í B-deild Alþingistíðinda. (2903)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Þegar hugmyndin um þjóðarsátt og lífskjarasamning fór að skjóta upp kollinum á síðasta ári æ oftar lét ég þá skoðun mína í ljós bæði í ræðu og riti að af þessari hugmynd stafaði ákveðin hætta. Ég gekk svo langt að kalla þessa hugmynd, eins og hún var fram sett, alvarlega aðför að lýðræði. Ég held að við séum að nokkru leyti að uppskera afrakstur þessarar þjóðarsáttar um lífskjarasamning og við séum einmitt að uppskera þann ávöxt hennar sem hvað greinilegast ber vott um aðför að lýðræðinu.

Ég er hérna með lítil lög í hendinni sem heita „Lög um stéttarfélög og vinnudeilur og lög um sáttastörf í vinnudeilum“. Þetta eru lög sem gilda í þessu landi og elsti hluti þeirra er frá 11. júní 1938. Ég tel að að því gengnu sem nú hefur átt sér stað, þjóðarsáttinni sem samþykkt var á þingi um daginn, megi ganga í það að ógilda þessi lög því að það er alveg greinilegt að menn virðast vera búnir að gera upp hug sinn um að kjaradeilur skuli leystar þannig í framtíðinni að ASÍ, VSÍ og ríkið semji sín á milli um laun og kjör fólks í landinu og setji síðan lög á þá sem hlaupa út undan sér í því samkomulagi. Þeir setja lög á þá vegna þess að ríkið er aðili að samningnum og ríkið er aðili að samningnum kannske ekki hvað síst til þess að setja lög á þá sem samkomulagið brjóta. Mér er spurn í þessari stöðu: Hvað héldu Alþfl. og Alþb. að þeir væru að gera þegar þeir samþykktu lögin hérna um daginn á þingi? Datt þeim í hug að önnur niðurstaða gæti orðið en sú sem nú er komin upp?

Ef svo fer fram sem horfir í þessum málum tel ég að við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegum hlutum. Við búum við lýðræði og lýðræðið grundvallast á réttarríki. Með lögum skal land byggja, segja menn, og lög skulu ráða en ekki menn. Þá eru menn að tala um svona lög, þ.e. lög um stéttarfélög og vinnudeilur og lög um sáttastörf í vinnudeilum, lög sem hafa almennt gildi fyrir alla þegna þessa lands. Þá erum við ekki að tala um lög eins og þessu frv. er ætlað að verða, þ.e. lög sem eru sértæk lagaúrræði ætluð til að bæla niður einstaklinga eða hópa einstaklinga í þjóðfélaginu. Þá er manni spurn: Til hvers brutust menn á sínum tíma undan því oki sem fólst í því þegar löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald var á hendi eins manns? Hér eru menn að ganga ekki bara eitt skref heldur mörg skref aftur á bak, því að hér er ríkisvaldið, hér er löggjafarvaldið gjörsamlega farið að gegna sama hlutverki og þetta eina sameinaða vald gegndi á sínum tíma þar sem löggjafinn ákvað eftir hentisemi hverju sinni hver lögin væru, framkvæmdi þau og dæmdi að geðþótta. Hér eru menn að tala um að víkja af þeim vegi að almenn lög skuli gilda um hegðan almennings í landinu.

Ég veit að þetta er ekki í fyrsta skipti sem við upplifum slíkt, en það kann að vera vegna þess að lög um stéttarfélög og vinnudeilur og sáttastörf í vinnudeilum eru ekki fullkomin, þau eru með göllum. Þá er það okkar hlutverk að laga þá galla, ekki að leysa þann vanda með því að gera ríkið einfaldlega að lögreglu í samningum, sem hlaupi til hverju sinni þegar bjátar á til að grípa inn í, fyrst með lögum og síðan með dómsvaldi ef menn ekki hlýða lögum. Þegar menn samþykkja þessi lög hér á þingi eru þeir um leið að búa til tæki í hendurnar á dómurum landsins og lögregluvaldi til að handtaka þá menn og dæma sem ekki fara að þessum lögum. Lög eru ekki bara til að stöðva menn í verkum sínum einhvers staðar þar sem þeir eru staddir á miðri leið. Lög eru tæki til að refsa mönnum og dæma þegar með þarf.

Sú leið, sem hér er farin, er tvímælalaust geðþóttaleið. Frv. er þess eðlis að þau stéttarfélög, ef einhver eru, sem eiga eftir að greiða atkvæði um þá samninga sem gerðir voru og samþykktir sem lög hér á Alþingi nánast, geta algjörlega hætt að greiða atkvæði. Það er þýðingarlaust að vera að greiða atkvæði um þessa samninga, hvort maður samþykkir þá eða fellir.

Í 2. gr. þessa frv. segir einfaldlega, með leyfi frú forseta:

„Kjaradómurinn skal við ákvörðun kaups og kjara mjólkurfræðinga leggja til grundvallar síðast gildandi kjarasamning Mjólkurfræðingafélags Íslands og vinnuveitenda og þær launa- og kjarabreytingar sem almennt hefur um samist á vinnumarkaði frá því kjarasamningar urðu lausir hinn 1. janúar 1986.“

Ekkert meira og ekkert minna, þ.e. kjaradómi er gert að dæma það að menn skuli hlíta samningunum og búið. Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur höfðu menn þó nokkuð fyrir því að setja reglur um hvernig skuli samið, hvernig og hvenær menn skuli boða til vinnustöðvunar eða verkfalla. Rétturinn er jafn á báðar hendur. Rétturinn er tvímælalaust fyrir hendi og skyldan líka. En hér er búið að leysa þetta í eitt skipti fyrir öll. Ég tel að þau stéttarfélög sem enn eiga eftir að greiða atkvæði um þessa samninga geti einfaldlega látið það vera því að það skiptir engu máli hvort þau samþykkja samningana eða fella þá, með þetta fordæmi í höndunum.

Óðagotið á mönnum er líka svo mikið að menn semja lög um það að lög skuli gilda í þessu landi. 5. gr. frv. tiltekur að meðan lög þessi eru í gildi er Mjólkursamsölunni og öðrum mjólkurvinnslustöðvum óheimilt að segja mjólkurfræðingum þeim sem lögin taka til upp starfi nema þeir uppfylli ekki lengur lágmarkskröfur sem gerðar eru til hæfni þeirra eða hafi gerst sekir um brot í starfi. Nú þykir vafi leika á um réttmæti uppsagna skv. 1. málsgr. og sker þá félagsdómur úr ágreiningnum.

Á 8. síðu í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur, í 44. gr., er tilgreint hvert er verkefni félagsdóms. Þar fer ekkert á milli mála að það er félagsdóms að taka á málum sem þessu. Ég ætla að vona að lög þessi séu þó í gildi enn þá um skamma hríð.

Frú forseti. Ég tel, eins og ég sagði áðan við atkvæðagreiðslu um að veita afbrigði fyrir því að taka þetta mál á dagskrá, að Alþingi sé hneisa búin af því að hlaupa til með þeim hætti sem það gerir núna og grípa inn í fullkomlega lögmæta gerninga aðila vinnumarkaðarins, gerninga þar sem menn takast á í samningum um að skipta því sem til skiptanna er eins og þeim er gert samkvæmt gildandi lögum. Ég tel að frv. þetta, verði það að lögum, sé ekki fyrsta skrefið því að fyrsta skrefið var stigið þegar ríkisstj. gerðist aðili að heildarkjarasamningunum með þeim hætti sem hún gerði núna um daginn. Fyrsta skrefið frá lýðræðinu er þegar stigið og þetta er annað skrefið. Það er ekki síður alvarlegt og það lýsir enn frekar e.t.v. en menn gerðu sér grein fyrir í upphafi hvert stefnt er í því að gera ríkisvaldið að lögreglu í samningamálum hér á landi. Ég tel að þetta sé, eins og ég sagði fyrst í máli mínu, ekki stórt skref. Þetta eru mörg stór skref aftur á bak frá lýðræðinu.