24.03.1986
Efri deild: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3307 í B-deild Alþingistíðinda. (2905)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Í ræðu minni áðan lét ég þess getið að þegar ríkisstj. snaraði fram í dag þessu frv., sem bannar mjólkurfræðingum að heyja sína kjarabaráttu með löglegum hætti, hefði aðeins eitt atriði staðið eftir óleyst í deilu samningsaðila, en það var sú krafa mjólkurfræðinga að fá greiddan fæðis- og flutningskostnað til samræmis við það sem ýmsir aðrir starfsmenn í mjólkurbúum hafa. Ég nefndi að það væru ekki aðeins starfsmenn í mjólkurbúum sem hefðu þennan rétt heldur væri um að ræða hliðstæð réttindi hjá stórum hluta launamanna við svipaðar aðstæður.

Nú er ég ekki sérfræðingur í þessum samningsákvæðum, ég hef ekki séð þau á pappír og get því ekki farið með þau hér, en hitt kom mér mjög á óvart að einn af nefndarmönnum landbn., hv. þm. Eiður Guðnason, virtist koma gjörsamlega af fjöllum í þessu máli og dró í efa að það væri rétt að aðrir nytu þessa réttar. Ég er ansi hræddur um að hann hafi tekið heldur illa eftir á nefndarfundinum, sem haldinn var í dag, þar sem þessi mál komu m.a. til umræðu, að því er aðrir nefndarmenn hafa tjáð mér, því að ég sat ekki þann fund sjálfur. Hann hefði líka gjarnan mátt hlusta á umræður sem fram fóru í Nd. fyrr í kvöld þar sem þetta var upplýst og kom mjög greinilega fram m.a. í ræðu hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar. Það mun vera staðreynd að t.d. málmsmiðir, rafiðnaðarmenn, byggingariðnaðarmenn almennt, bifvélavirkjar, allir þessir aðilar njóta þessara réttinda.

Hins vegar verður sjálfsagt að taka það með í reikninginn að þarna er um að ræða ákvæði sem kannske á fyrst og fremst við í Reykjavík. Ég þekki ekki alveg nákvæmlega að hve miklu leyti það á við úti á landi og vil ekkert um það fullyrða, en hef óljósan grun um að þetta ákvæði sé alveg sérstaklega tengt aðstæðum í Reykjavík og þá um leið þeirri staðreynd að Mjólkurstöðin er að flytja sig á Bitruháls fyrir austan Elliðaár.

Það hafa lengi verið ákvæði í kjarasamningum verkalýðsfélaga um sérstök hlunnindi ef menn þurfa að fara langan veg að vinnustað. Á tímabili var þessi lína dregin við Fúlalæk, að því er ég held, en seinna var hún flutt inn að Elliðaám. Þó að hér sé kannske ekki um að ræða nákvæmlega sömu reglu og gildir í samningum almennu verkalýðsfélaganna hygg ég að þetta sé á margan hátt náskylt ákvæði, að ekki sé meira sagt. En hitt er alveg ljóst að stór hluti starfsmanna mjólkurstöðva, þar á meðal iðnaðarmenn sem ég nefndi áðan, njóta þessa réttar. Þetta kom mjög greinilega fram á nefndarfundinum í kvöld, að því er aðrir hafa tjáð mér. Ég er ansi hræddur um að hv. þm. hafi látið hugann reika eitthvað út um gluggann á Þórshamri þegar þetta bar þar á góma. Mér er líka sagt að það hafi verið upplýst á þessum fundi að ýmsir þeir sem njóta þessara réttinda séu í hærri launaflokkum en mjólkurfræðingar.

Þetta vildi ég að kæmi hér skýrt fram vegna þess að auðvitað kom það mér mjög á óvart að hv. þm. skyldi leyfa sér að mótmæla því sem ég sagði áðan. Ég er ekki að halda því fram að hann hafi verið að segja vísvitandi ósatt, en hann stóð greinilega í rangri trú og hélt að hér stæði deilan um eitthvert það atriði sem enginn annar hefði fengið en mjólkurfræðingar. Það er bara alls ekki svo. (Gripið fram í: Þetta sagði hann nú ekki.) Hann sagði að það sem ég hefði upplýst í þessu máli væri rangt. Ég held að við hljótum að geta verið sammála um það. Hann sagði að það væri rangt sem ég hefði hér skýrt frá um eðli þessa máls. Ég sagði að mjög margir aðrir nytu þessa réttar og ég er reiðubúinn að standa við það. Ég hef því miður ekki nein sönnunargögn í höndunum til að útkljá þessa deilu, en þarna er svo sannarlega nokkurt viðfangsefni fyrir nefndina að fjalla um.

Út af orðum hv. þm. Stefáns Benediktssonar áðan, þegar hann sagði að Alþýðuflokksmenn og Alþýðubandalagsmenn á þingi hefðu átt að gera sér grein fyrir því að meðferð frv. um ráðstafanir í efnahagsmálum, sem var til meðferðar hér á dögunum, hlyti að leiða af sér frumvarpssmíð af þessu tagi eins og hér er núna til umræðu, vil ég segja það eitt að slíkt er fjarstæða. Þetta eru alveg óskyld mál. Það sem við vorum að fjalla um hér á dögunum voru ekki kjarasamningarnir á milli Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins. Það er hinn mesti misskilningur að við höfum þar verið að greiða atkvæði um þá kjarasamninga. Auðvitað var ýmislegt að athuga við þá kjarasamninga og þeir voru svo sannarlega ekki fullnægjandi fyrir launafólk í landinu. Það kom mjög greinilega fram í orðum mínum við þá umræðu að ég teldi þá samninga alls ekki fullnægjandi og að kaupmáttur launa yrði bersýnilega allt of lágur áframhaldandi. En við vorum beðin um að segja af eða á um hvort það ætti að samþykkja ákveðinn félagsmálapakka sem fylgdi þessum samningum. Við áttum um það að velja hvort við vildum samþykkja t.d. ákveðnar ráðstafanir í húsnæðismálum eða ekki. Við féllumst á það, mikill meiri hluti þingmanna, að láta þennan félagsmálapakka ganga fram. En auðvitað fylgdi því ekki að frjáls verkalýðsfélög í landinu mættu ekki gera kjarasamning af öðru tagi. Ég held að engum hafi dottið í hug að túlka samningsgerðina þá á þann veg að verið væri að meina mönnum frjálsan samningsrétt héðan í frá á þessu samningstímabili Alþýðusambands og Vinnuveitendasambands.