24.03.1986
Efri deild: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3308 í B-deild Alþingistíðinda. (2906)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki hv. 3. þm. Norðurl. v. til að segja mér hvað gerðist á sameiginlegum fundum landbn. milli kl. 18 og 19 í kvöld. Ég var þar. Hann var þar ekki. Og ég veit alveg nákvæmlega hvað gerðist þar. Ég dró í efa að það væri rétt, sem þessi hv. þm. sagði, að „allur þorri launþega“, og það er orðrétt tilvitnun, nyti þessara ferða- og fæðispeninga. Ég dró það í efa. (RA: Í Reykjavík.) Ég held að hann hafi ekki skilyrt það með þeim hætti í fyrri ræðu sinni hér. Staðreyndin er sú, eins og hann rakti áðan, að stórir hópar iðnaðarmanna og sjálfsagt velflestir njóta þessara réttinda. Félagar í almennu verkalýðsfélögunum njóta ekki þessara réttinda. Ég gekk úr skugga um það með símtali nú þegar klukkuna vantaði 15 mínútur í 12 eða svo við einn af forvígismönnum Alþýðusambandsins sem veit þetta gjörla og þess vegna segi ég þetta. Mér kom á óvart þegar hv. þm. sagði að allur þorri launþega nyti þessara réttinda vegna þess að það kom ekki fram á þessum fundi landbn. Það kom einmitt fram hjá flokksbróður hv. 3. þm. Norðurl. v., ég skildi alla vega orð hans svo, að hér væri krafa sem hin almennu verkalýðsfélög væru að berjast fyrir en aðrir hefðu náð fram.

En ég held að það sé ástæðulaust, virðulegi forseti, að gera langt mál úr þessu. Ég er búinn að lýsa því sem ég veit réttast í þessu máli. Hv. 3. þm. Norðurl. v. telur annað réttast. Nú er bara að ganga úr skugga um hvor hefur rétt fyrir sér. Ég fulltreysti orðum þess fulltrúa Alþýðusambands Íslands sem ég átti orðastað við fyrir stundarfjórðungi um að félagar í almennu verkalýðsfélögunum nytu ekki þessara réttinda.