25.03.1986
Efri deild: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3309 í B-deild Alþingistíðinda. (2909)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Frsm. meiri hl. (Egill Jónsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. landbn. Ed. Alþingis um frv. til l. um lausn vinnudeilu Mjólkurfræðingafélags Íslands annars vegar, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna hins vegar.

Eins og fram kemur í afgreiðslu landbn. Ed. varð nefndin ekki sammála og reyndar er hún í fernu lagi, en að sjálfsögðu skýra þeir sem skrifa nöfn sitt undir minnihlutaálit nefndarinnar sína afstöðu. Þeir sem undirrita álit meiri hl. eru auk mín Eyjólfur Konráð Jónsson, Davíð Aðalsteinsson og Þorv. Garðar Kristjánsson.

Í nál. kemur fram að í kvöld var haldinn sameiginlegur fundur beggja landbn. þar sem fjallað var um frv. og þar komu til fundar við nefndirnar Guðlaugur Þorvaldsson sáttasemjari, Þórarinn Þórarinsson frá Vinnuveitendasambandinu, Hjörtur Eiríksson frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og fimm fulltrúar frá Mjólkurfræðingafélaginu og þar í hópi var meðal annarra formaður þess félags, Geir Jónsson.

Þar voru að sjálfsögðu mál skýrð fyrir nefndunum og þær skýringar, sem þar komu fram, voru mjög í sama anda og komu fram í framsöguræðu hjá hæstv. landbrh. þannig að ég get í rauninni vísað til hans orða til frekari rökstuðnings, auk þess sem virðulegir deildarmenn hafa fylgst nokkuð með umræðum á öðrum stað í húsinu í kvöld. Þar af leiðandi ætti að vera nokkuð ljóst hvað hér er verið um að fjalla.

Ég sé því ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar í framsögu fyrir þessu máli, virðulegur forseti, og lýk hér með mínum skýringum á nál.