25.03.1986
Efri deild: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3310 í B-deild Alþingistíðinda. (2912)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Frsm. 3. minni hl. (Kolbrún Jónsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. 3. minni hl. landbn., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. af þessu tagi, sem hér er lagt til að verði að lögum, brýtur í bága við skilning Bandalags jafnaðarmanna á hlutverki lagasetningar og almennum mannréttindum eins og margoft hefur verið bent á þegar frv. af þessum toga hafa verið lögð fram á Alþingi.

Ég mun því greiða atkvæði gegn þessu frv.“

Ég velti því fyrir mér áðan hve oft ég hafi staðið frammi fyrir frv. af þessu tagi þann skamma tíma sem ég hef átt sæti á hv. Alþingi. Þetta er fjórða málið af þessum toga. Mér komu í hug flugmenn og flugfreyjur. Brbl. voru sett á starfsfólk í sláturhúsum og nú mjólkurfræðinga. Það geta verið fleiri mál þó að þau hafi ekki komið upp í hugann á svo skömmum tíma.

Er ekki kominn tími til að við veltum fyrir okkur hvort það sé ekki breytinga þörf á vinnulöggjöfinni, eins og hv. þm. Stefán Benediktsson kom að áðan? Væri ekki skynsamlegra að fólk sem vinnur á sama vinnustað semdi í einni heild í stað þess að smáhópar eru alltaf að draga sig út úr og reyna að öðlast betri kjör handa sér? Hér stöndum við oft frammi fyrir mjög fámennum hópum frá viðkomandi vinnustöðum, kannske örfáum prósentum starfsfólks frá þeim vinnustað sem lamast þegar menn fara í verkföll. Eru ekki líkur til þess að laun yrðu jafnari á viðkomandi vinnustöðum ef fólk semdi í einu lagi við vinnuveitanda?

Þetta kom mér í hug vegna þess að á nefndarfundi var sérstaklega nefnt að mjólkurfræðingar byggju ekki við svo kröpp kjör. Það er oftast nær sagt í umræðum að menn þurfi ekki að kvarta. Það er oft notað sem rök fyrir því að lög séu sett. Stundum dettur mér í hug þegar ég hlusta á umræður um slíka lagasetningu að ég sé komin á samningafund vegna þess að það er verið að ræða fram og til baka kröfur manna um kaup og kjör. Okkar hlutverk er löggjafarstarf en ekki umræður um hvað menn fara fram á mikla hækkun á sínum launum. Við erum alls ekki fær um að dæma hvort þetta sé réttlætanlegt eða ekki. Það er alls ekki okkar hlutverk.