25.03.1986
Efri deild: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3311 í B-deild Alþingistíðinda. (2913)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Eiður Guðnason áttum nokkur orðaskipti við 1. umr. málsins. Ég hélt því fram að þorri launamanna í Reykjavík nyti þeirra réttinda sem ein stóðu eftir sem deilumál milli samningsaðila í dag þegar ríkisstj. ákvað að leggja þetta frv. fram, en það er ákvæði um fæðis- og ferðakostnað, tengt svokallaðri flutningalínu. Hv. þm. gerði sér það ómak strax eftir að ég hafði komið með þessa ábendingu að vefengja þetta mjög eindregið. Ég benti honum þá á í svarræðu minni hvaða dæmi ég gæti tínt til í sambandi við þetta. Ég nefndi ýmis dæmi um hópa iðnaðarmanna sem nytu þessara réttinda og það væri því fjarri lagi að mjólkurfræðingar væru að fara fram á eitthvað það sem aðrir hefðu ekki fengið. Hv. þm. Eiður Guðnason kom hér upp og svaraði þessu með því að taka undir það með mér eftir nýjum upplýsingum sem hann hafði fengið að líklega væri rétt að nokkrir hópar iðnaðarmanna nytu þessara réttinda, en áreiðanlega ekki fleiri og t.d. alls ekki hin almennu verkalýðsfélög.

Það hefði svo sannarlega verið eðlilegast að hv. nefnd hefði reynt að ganga úr skugga um hvað væri rétt í þessu, en hún kemur hér til baka aftur og hefur ekkert gert í málinu og við erum engu nær, a.m.k. ekki miðað við þær upplýsingar sem frá nefndinni koma. En það vildi svo til að þegar við þm. gengum hérna niður í Kringluna meðan nefndin sat að störfum voru fluttar miðnæturfréttir Ríkisútvarpsins og fréttaritari Ríkisútvarpsins hér á Alþingi gerði grein fyrir umræðum í Nd. Hann hafði þar eftir formanni verkamannafélagsins Dagsbrúnar, formanni Verkamannasambands Íslands að þessi krafa, sem við höfum verið að þrátta um í kvöld, af hálfu mjólkurfræðinga sé ekkert annað en samræmingaratriði við það sem aðrir hafa fengið, þar á meðal Dagsbrúnarmenn. Þetta voru hans óbreyttu orð. Ég vona að þessi vitnisburður nægi til að sýna fram á hver hefur rétt fyrir sér í þessu máli.