25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3312 í B-deild Alþingistíðinda. (2919)

101. mál, fríiðnaðarsvæðið við Keflavíkuflugvöll

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Árið 1984 í maímánuði var samþykkt svofelld þál.:

„Alþingi ályktar að fela Framkvæmdastofnun ríkisins að gera athugun á hvort hagkvæmt sé að koma á fót fríiðnaðarsvæðum hér á landi, t.d. á Keflavíkurflugvelli eða annars staðar þar sem henta þætti. Við gerð slíkrar athugunar verði haft samráð við samtök iðnaðarins.“

Af því tilefni og að nokkur tími er liðinn frá því að þessi þál. var samþykkt hef ég leyft mér að leggja fram fsp. til forsrh. Hún er svohljóðandi:

„Hvað líður framkvæmd þál. um fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll sem samþykkt var 22. maí 1984?"