31.10.1985
Sameinað þing: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

13. mál, vaxtafrádráttur til jöfnunar á húsnæðiskostnaði

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 13 um athugun á vaxtafrádrætti til jöfnunar á húsnæðiskostnaði, en flm. ásamt mér eru hv. þm. Kjartan Jóhannsson og Karl Steinar Guðnason. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna hvernig skattfrádráttur vegna vaxtagjalda nýtist húsbyggjendum og íbúðakaupendum til jöfnunar á húsnæðiskostnaði með tilliti til mismunandi tekna og frádráttar­ bærra vaxtagjalda.

Jafnframt skal á grundvelli könnunarinnar lagt á það mat hvort þennan frádrátt megi nýta betur eftir öðrum leiðum með það að markmiði að ná meiri jöfnun í húsnæðiskostnaði húsbyggjenda og íbúðakaupenda.

Niðurstöður skulu lagðar fyrir Alþingi eins fljótt og auðið er og eigi síðar en við upphaf næsta þings.“ Þáltill. þessi var flutt á síðasta þingi en náði þá ekki fram að ganga. Rétt er að geta þess að umsagnir bárust þá um till. frá ríkisskattstjóra og Alþýðusambandi Íslands sem mæltu með samþykkt hennar. Ríkisskattstjóri mælti með samþykkt till. með brtt. sem tekið hefur verið tillit til nú við endurflutning málsins.

Eins og kunnugt er eru vextir af fasteignaveðlánum til tveggja ára eða lengri tíma, sem tekin eru vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota eða til endurbóta á því. frádráttarbærir til skatts. Sama gildir um vaxtagjöld af öðrum skuldum sem stofnað er til í sama tilgangi; þau má draga frá á næstu þremur árum frá og með kaupári eða næstu sex árum frá og með byggingarári íbúðarhúsnæðis. Frádráttur þessi takmarkast við þá upphæð sem vaxtagjöld eru hærri en vaxtatekjur. Frádráttur má þó eigi vera hærri en 159 380 kr. hjá einstaklingi og rúmar 318 760 kr. hjá hjónum.

Efni þessarar þáltill. er í stuttu máli það hvort nýta megi þennan vaxtafrádrátt vegna öflunar húsnæðis betur eftir öðrum leiðum til að jafna húsnæðiskostnað. Til þess er vitnað í grg. með till. að rannsóknir sem farið hafa fram annars staðar á Norðurlöndum vegna skattalækkunar sem leiði af vaxtagjöldum húsnæðislána sýni ótvírætt fram á að þessi óbeina aðstoð við húsbyggjendur og íbúðakaupendur fari að mestu leyti til hátekjufólks. Fram kemur einnig að niðurgreiðsla á húsnæðiskostnaði með skattafslætti sé orðin umfangsmesti liður í aðstoð hins opinbera við íbúðakaupendur og húsbyggjendur.

Í Danmörku var á árinu 1979 niðurgreiðsla húsnæðiskostnaðar með skattalækkun 11 milljarðar og 600 millj. d. kr., í Finnlandi 607 millj. finnsk mörk, í Noregi 3 milljarðar 598 millj. n. kr. og í Svíþjóð 6 milljarðar 400 millj. sænskra kr. Í yfirliti yfir tekju- og frádráttarliði á skattframtölum hér á landi frá ríkisskattstjóra vegna álagningar 1985 kemur fram að vaxtagjöld til frádráttar vegna álagningar 1985 nema samtals rúmlega 11/2 milljarði kr. og nær til 16 600 framteljenda. Hér er því um gífurlegar fjárhæðir að ræða og sú spurning hlýtur að vakna hvort þessi aðstoð við íbúðaröflun sé hin hagkvæmasta og réttlátasta eða hvort völ sé á betri leiðum. Til samanburðar við þennan 11/2 milljarð sem dregst frá tekjuskattsstofni vegna vaxtagjalda og nær til 16 600 framteljenda má upplýsa að fjöldi þeirra sem nýtir sér fastan frádrátt eða 10%-regluna er 132 725 manns og frádráttur á þeim lið til lækkunar tekjuskatts rúmlega 4 milljarðar og 377 millj. kr. eða að meðaltali um 32 000 kr. á hvern einstakling til frádráttar meðan meðaltal fyrir hvern og einn sem nýtir sér vaxtagjöld til frádráttar er rúmlega 90 000 kr.

Það hlýtur að vera umhugsunarvirði þegar um svo háa fjárhæð er að ræða, eða rúmlega 11/2 milljarð sem dregst frá tekjuskattsstofni vegna vaxtagjalda sem þó nær til tiltölulega fárra einstaklinga, hvort ekki sé rétt að kanna hvort nýta megi það fjármagn eftir öðrum leiðum til að jafna húsnæðiskostnað. Ekki síst hlýtur slíkt að vera nauðsynlegt í ljósi þeirra rannsókna sem fram hafa farið annars staðar á Norðurlöndum og sýna að skattalækkanir vegna vaxtafrádráttar renna að mestu til hátekjufólks. Ef sú er einnig raunin hér á landi hlýtur að vera eðlilegt að leita annarra leiða til að nýta þetta fjármagn í því skyni að ná fram meiri jöfnuði í niðurgreiðslu húsnæðiskostnaðar fyrir húsbyggjendur og íbúðakaupendur því hér er um að ræða opinberan stuðning í formi skattalækkunar við þá sem eru að afla sér íbúðarhúsnæðis.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að hafa um þetta mál fleiri orð. Tilgangurinn með flutningi þessarar tillögu er augljós: annars vegar að leiddur verði í ljós sannleikurinn um hvernig vaxtafrádráttur nýtist í raun einstökum tekjuhópum og hins vegar til þess að hugað verði að því hvort aðrar leiðir séu líklegri til að skila okkur nær því markmiði, sem stefna ber að, að opinber aðstoð vegna öflunar húsnæðis komi sem réttlátast niður og nýtist sem best til jöfnunar á húsnæðiskostnaði.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að till. verði vísað til hv. félmn.