25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3318 í B-deild Alþingistíðinda. (2930)

346. mál, sala mjólkur til Grænlands

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Bændasamtökin hafa samið við ríkisvaldið um fullvirðisrétt á 107 millj. lítra mjólkur. Þessi tala á að jafngilda samdrætti í mjólkurframleiðslu sem svarar um 4%. Í reynd er þó samdrátturinn mun meiri því að gífurleg aukning hefur orðið á mjólkurframleiðslu síðan 1. sept. s.l. meðal annars vegna góðviðris á Suður- og Vesturlandi á s.l. sumri, auk þess sem settir voru á 1000 kvígukálfar 1984 sem eru að komast í gagnið núna. Bændur hafa verið áræðnir við byggingu og vélakaup og lán hafa verið veitt út á a.m.k. 80 fjós á s.l. ári þrátt fyrir að nægilegt fjósrými sé þegar fyrir hendi í landinu til að framleiða þá mjólk sem þarf.

Eins og ég sagði áður hefur verið samið um fullvirðisrétt á 107 millj. lítra mjólkur, en innanlandsneysla okkar er um 95, í mesta lagi 100 millj. lítra og eru þá allar mjólkurafurðir taldar með. Offramleiðsla mjólkur nemur því a.m.k. 7-12 millj. lítra, en er trúlega mun meiri vegna þeirrar framleiðsluaukningar sem varð á s.l. ári.

Það er vafasamur áróður að ætla Íslendingum að torga þessari offramleiðslu einum sér þó að eflaust séu ýmsir meðal okkar sem gott hefðu af meiri mjólkurneyslu. Hins vegar eru gæði íslenskrar mjólkur og mjólkurafurða slík að þær eru fullboðlegar öðrum til kaups.

Við höfum tekið upp í vaxandi mæli samskipti við nágranna okkar Grænlendinga, sbr. nýkjörna nefnd um samstarf eyþjóða í norðurhöfum og nýlega kynningu í tengslum við opnun flugleiðar milli Íslands og Grænlands. Grænlendingar hafa hingað til keypt mjólk og mjólkurafurðir af Dönum og þá t.d. geymslumjólk um það bil einu sinni í viku. Íslenskar mjólkurafurðir munu hafa verið kynntar þar núna nýlega og virðist sem þar sé vænlegur markaður fyrir þessar afurðir og mun auðveldari aðföng fyrir Grænlendinga að ná til Íslands en til Danmerkur í þessum efnum.

Því hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. á þskj. 632 um sölu mjólkur til Grænlands svohljóðandi:

„Hefur landbrh. látið kanna möguleika á því að selja íslenska mjólk og mjólkurafurðir til Grænlands?"