25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3319 í B-deild Alþingistíðinda. (2931)

346. mál, sala mjólkur til Grænlands

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á s.l. sumri kom viðskiptaráðherra Grænlendinga hingað til Íslands. Þá ræddi ég við hann um þá möguleika að koma mjólkurafurðun héðan á markað á Grænlandi, en samgöngum var þá þannig háttað að það var erfitt. Auk þess var þá Konunglega grænlenska verslunin einráð um innflutning og allir flutningar urðu að fara í gegnum Álaborg í Danmörku. Breyting varð á því um síðustu áramót því að Grænlendingar yfirtóku verslunina sjálfir og varð þá um leið viðhorfsbreyting. Síðan gerist það að teknar voru upp beinar flugsamgöngur milli Nuuk og Reykjavíkur fyrir skömmu og í tilefni þess var mér ásamt fleirum boðið að koma til Nuuk. Þá ræddi ég þessi mál og athugaði.

Eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda kaupa Grænlendingar frá Danmörku mestallar sínar mjólkurvörur geymsluþolnar og það á svo lágu verði að útilokað er fyrir okkur að keppa á þeim markaði. Hins vegar vilja einhverjir neytendur þar a.m.k. fá ferskar mjólkurvörur og hafa fengið þær með flugvélum frá Kanada í litlum mæli, en þá eru þær mjög dýrar. Hálfur lítri af mjólk kostar um það bil 17 kr. danskar út úr verslunum þar og peli af rjóma eitthvað svipað þannig að þar er um mjög hátt verð að ræða.

Þá er sá annmarki hvernig við eigum að koma mjólkinni til Grænlands án allt of mikils tilkostnaðar. Ég ræddi það við Grænlandsflug hvort mögulegt væri að koma henni með þeirra vélum. Þær hafa mjög lítið burðarþol þannig að það er vandamál með það og auk þess er flutningsgjald hátt. Hins vegar tóku þeir vel í að athuga þann möguleika hvort hægt væri að koma mjólk með ef ekki væri um annan flutning að ræða.

Hins vegar munu Flugleiðir taka upp flug til Suður-Grænlands, til Narssarssuaq, síðar á þessu ári og þá með stærri vélum með meira flugþol og þeir hafa einnig tekið mjög vel í að athuga möguleika á því að flytja mjólk fyrir okkur.

Hins vegar er augljóst að það er ekki um mikið magn að ræða sem kemst með flugvélum, öðruvísi getum við ekki flutt mjólkina út ferska, en hins vegar er sjálfsagt að nýta þá möguleika. Það var haldin sýning í Nuuk á íslenskum vörum og þá sérstaklega mjólkurvörum í tilefni heimsóknar okkar í síðasta mánuði og undirtektir t.d. við skyrið og fleiri vörur voru mjög góðar. Við ræddum við verslunarstjóra sem kvaðst vera reiðubúinn að taka á móti þessum vörum ef við gætum komið þeim til þeirra án allt of mikils tilkostnaðar þannig að verðið yrði nokkru lægra en er á kanadísku mjólkinni sem er svo hátt að það er tiltölulega lítil sala á henni.

Starfsmaður markaðsnefndar landbúnaðarins stóð fyrir þessari sýningu í Nuuk og hann heldur áfram að vinna að þessum málum. Það verður gert allt sem hægt er til að nýta þennan markað, en eins og ég segi er ekki hægt að gera sér vonir um að þarna verði um mikið magn að ræða.

Ég vil taka undir orð hv. fyrirspyrjanda um að vissulega hefðu sumir Íslendingar gott af því að drekka meiri mjólk. Þá hljótum við að hafa fyrst og fremst í huga börnin sem sum hver virðast vera hætt að drekka mjólk. En sem betur fer er verið að gera núna átak til að auka mjólkursölu, eins og alþm. má vera kunnugt, og sem betur fer virðist það þegar vera að bera nokkurn árangur og er það vissulega mikilvægt fyrir íslenska neytendur