25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3320 í B-deild Alþingistíðinda. (2934)

352. mál, Greiningar og ráðgjafastöð ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að svara þessari fsp. á þskj. 642. Ég hef fengið greinargerð frá forstöðumanni stöðvarinnar, sem er Stefán Hreiðarsson læknir, en nú eru liðnir tæpir þrír mánuðir frá því að greiningarstöðin tók til starfa á vegum félmrn. með því að starfsemi sú sem menntmrn. hafði rekið um tíu ára skeið sem athugunardeild í Kjarvalshúsi var formlega breytt í Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins samkvæmt ákvörðun Alþingis.

Hér fara á eftir svör við fsp. um biðlista og gefa þau vonandi einhverja hugmynd um ástandið eins og það er í dag.

1. Reynt hefur verið að veita yngstu börnunum forgang að þjónustu stöðvarinnar. Börn innan við tveggja ára aldur, sem vísað er til greiningar og meðferðar, eru oftast tekin í göngudeildarþjónustu innan tveggja mánaða frá tilvísun. Aðstandendur fá ráðgjöf og stuðning með föstum heimsóknum til sjúkraþjálfa, talkennara og á leikfangasafn. Í þessum hópi eru 44 börn og eru 13 þeirra á biðlista fyrir ítarlegri athugun á dagdeild stöðvarinnar.

Eldri börnum má skipta í þrjá hópa. 45 börnum á aldrinum tveggja til sex ára hefur verið vísað til stofnunarinnar á undanförnum tveim árum án þess að athugunardeildin hafi getað sinnt þeim á neinn hátt. 15 þeirra verða sex ára á þessu ári og er því mjög brýnt að greining fari fram hið fyrsta með tilliti til skólagöngu. 35 börn, sem athugunardeildin hefur haft afskipti af á liðnum árum, verða sex ára á þessu ári og eru á biðlista með tilliti til endur- og fullnaðarathugunar. 58 börn, sem eru í eftirliti á vegum stöðvarinnar, eru á biðlista með tilliti til endurmats vegna breyttra forsendna og nýrra vandamála. Alls eru því á biðlista til greiningar eða endurmats 138 einstaklingar.

2. Biðtími hinna ýmsu hópa er mislangur. Enn fremur er reynt að taka tillit til óvenjulegra aðstæðna og alvarleika fötlunar hjá einstökum skjólstæðingum stöðvarinnar. Biðtími barns á aldrinum 3-6 ára, sem er ekki hreyfihamlað eða atferlistruflað, er 6-12 mánuðir fyrir minnstu þjónustu og um það bil 1-2 ár fyrir fullnaðargreiningu. Biðtími barna yngri en tveggja ára til að fá lágmarksþjónustu er 1-2 mánuðir, en getur verið 6-12 mánuðir til fullnaðarathugunar. Eldri einstaklingum, sem ekki hafa tengst staðnum áður, er nánast vísað frá.

3. Biðlisti einstakra hópa hefur verið nokkuð óbreyttur undanfarin ár. Hins vegar eru þegar merki um að biðlistar muni lengjast við skipulagsbreytinguna, þ.e. með tilkomu Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar. Þannig eru tilvísanir á þeim 21/2 mánuði síðan greiningarstöðin tók til starfa þegar orðnar 20 sem er næstum helmingsaukning miðað við síðasta ár.

4. Sem fyrr segir var svo til engin aukning á starfsliði athugunardeildarinnar leyfð síðustu 2-3 árin þrátt fyrir brýna þörf. Við breytinguna um síðustu áramót fengust þrjú ný stöðugildi, þ.e. staða forstöðumanns og tvö önnur stöðugildi. Þessi aukning á starfsliði mun ekki leiða til umtalsverðrar aukningar á umsetningunni, en mun nýtast fyrst og fremst til að bæta þjónustu við þá einstaklinga sem þegar fá hana, svo og til aukinna samskipta við aðrar stofnanir.

Sömu sögu er að segja um húsnæði stöðvarinnar. Sú aukning í húsnæði sem viðbót Sæbrautar 2 hafði í för með sér nýtist fyrst og fremst til að gera aðstöðuna með núverandi starfsemi viðunandi, en leyfir ekki aukningu í starfsemi að ráði.

Ef Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins á að rækja þær skyldur sem henni er ætlað í lögum um málefni fatlaðra er ljóst að bæta þarf aðstöðu hennar verulega á næstu árum, bæði hvað varðar starfslið og húsnæði. Það er því brýnt að mótuð verði ákveðin stefna í húsnæðismálum stöðvarinnar til lengri tíma. Það verður hins vegar að líta svo á að neyðarástand ríki hjá stofnuninni hvað varðar getuleysi til að þjóna þeim sem nú þegar leita til stöðvarinnar og fá ekki þá þjónustu sem þeir þurfa. Ef á að leysa þennan vanda þurfa að koma til viðeigandi ráðstafanir, aukning í starfsliði og hugsanlega nýtt bráðabirgðahúsnæði hið fyrsta. Á meðan það gerist ekki verður áfram stór hópur barna á biðlistum og dýrmæt ár glatast sem annars mætti nota til þjálfunar og vegna hraðari greiningar til að minnka fötlun, auk þess sem það mundi létta hið tilfinningalega álag sem aðstandendur þeirra hljóta að verða fyrir.

Þannig er skýrsla hins nýja forstöðumanns, Stefáns Hreiðarssonar læknis.

Ég hef í sjálfu sér litlu við þetta að bæta. Félmrn. mun fylgja þessu máli eftir og leita allra ráða til að hægt verði að byggja upp þessa starfsemi sem er svo mikilvæg fyrir málefni fatlaðra. Það mun koma í ljós við undirbúning fjárlaga fyrir næsta ár.