25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3322 í B-deild Alþingistíðinda. (2936)

352. mál, Greiningar og ráðgjafastöð ríkisins

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á því ástandi sem nú ríkir í þessum málum og þarf ekki nema heyra tölu eins og þá, sem hæstv. ráðh. nefndi hér áðan, að 138 börn séu á biðlista til frumgreiningar í Greiningarstöð ríkisins.

Það sem ég vil leggja áherslu á hér er að fyrir örfáum árum eða 1982 voru samþykkt lög um málefni fatlaðra og með þeim átti að tryggja áframhaldandi uppbyggingu á þeim stofnunum sem þarf til þess að þeir sem fatlaðir eru geti lifað nokkurn veginn mannsæmandi lífi. En allt síðan þáv. félmrh. hætti störfum, hv. þm. Svavar Gestsson, hefur þetta farið niður á við. Ég vil þess vegna lýsa því yfir að ég tek mátulegt mark á yfirlýsingum eins og núv. hæstv. félmrh. hafði í frammi áðan um að nú verði hugað að þessum málum við gerð næstu fjárlagaáætlunar. Það væri svo sem ánægjulegt, en hingað til hefur fé til þessa málaflokks verið stöðugt skorið niður.