25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3322 í B-deild Alþingistíðinda. (2938)

324. mál, hringrot í kartöflum

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að það er vaxandi kvíði í bændum, sem lifa að verulegu leyti á kartöflurækt, að hringrot, sem vart hefur orðið um nokkurra ára skeið, sérstaklega í lágsveitum Suðurlands, muni berast um landið ef ekki verða gerðar ráðstafanir til að hindra það.

Eins og kunnugt er fer stofnrækt á útsæðiskartöflum eingöngu fram í Eyjafirði og þar er eitt af meiri háttar kartöflusvæðum landsins. Það er ekki vitað til þess, ekki enn a.m.k., að hringrot hafi borist þangað norður eða út frá þessu takmarkaða svæði sem ég gat um áðan, þ.e. lágsveitum Suðurlands.

Nú hefur enn fremur komið fram í fjölmiðlum að verslanir á Akureyri hafa fengið til sölu matarkartöflur sem gera má ráð fyrir að séu af hinu sýkta svæði. Ég tel að það þurfi að huga vel að þessu máli og ég veit að eitthvað hefur verið kannað ástand útsæðis norður við Eyjafjörð. Þess vegna hef ég leyft mér að bera upp fsp. til hæstv. landbrh.:

„1. Hafa verið gerðar ráðstafanir til að hindra útbreiðslu á hringroti í kartöflum?

2. Hefur verið leitað álits sérfræðinga um hvaða leiðir séu vænlegastar til að útrýma þessum sjúkdómi?" Auðvitað hefði verið þörf á því að leita fleiri svara, koma með fleiri spurningar, t.d. hvort það geti ekki verið hættulegt að selja útsæði í þeim verslunum sem hafa selt matarkartöflur og hvort sé ekki ástæða til að gera ráðstafanir í þeim efnum og enn fremur um umbúðir utan af kartöflum af þessu sýkta svæði.