25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3324 í B-deild Alþingistíðinda. (2940)

324. mál, hringrot í kartöflum

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans. Þó að það sé ekki tækifæri til að ræða þessi mál hér ítarlega vil ég bæta því við okkur til umhugsunar, sem hér erum, að nú hefur verið upplýst að það hafi verið fluttar kartöflur í verslun norður á Akureyri. Það hefur verið upplýst að kartöfluverksmiðjan á Svalbarðseyri hafi fengið kartöflur frá hinu sýkta svæði. Það þarf að huga að því hvort eigi að líða slíkan flutning, hvort það verður ekki að koma í veg fyrir slíka flutninga og líka að leita eftir því hvort ekki er full ástæða til að aðvara þá sem kaupa kartöflur á þessu svæði, hvernig eigi að fara með umbúðir utan af þessum kartöflum.

Það kom fram í orðum hæstv. ráðh. að skoðað hefur verið útsæði frá 40 bændum við Eyjafjörð. Það eru væntanlega þeir sem eru með stofnútsæði. En nú eru margir aðrir sem eru með útsæði á Norðurlandi. Auðvitað er laukrétt að það þarf að skoða kartöflur hjá öllum þessum framleiðendum. En mér finnst vera full ástæða til að gera athugun á því hvort ekki er hægt að skoða hjá fleirum þar sem eru hverfandi líkur fyrir því að sjúkdómurinn hafi borist norður þannig að menn geti fengið heilbrigt útsæði.

Ég held að það sé kappsmál fyrir alla, ekki síst þá sem hafa framleitt kartöflur, að reynt sé að verja þau byggðarlög sem hafa ekki enn orðið fyrir barðinu á þessum sjúkdómi og þó sérstaklega Eyjafjörð, sem hefur verið til fleiri ára með stofnútsæði, því að margir framleiðendur, bæði á Suðurlandi og annars staðar, hafa sótt útsæði þaðan.

Ég vil hvetja hæstv. ráðh., og ég veit að hann athugar það vel, til þess að láta gera allar tiltækar ráðstafanir til að hindra að sjúkdómurinn berist út og líka séu kannaðir möguleikar á að nýta það útsæði sem til er og er heilbrigt.