25.03.1986
Sameinað þing: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3329 í B-deild Alþingistíðinda. (2952)

Framkvæmd framfærslulaga

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Sú ráðstefna sem haldin var um fátækt á Íslandi staðfestir að mínu viti einkum tvennt.

Í fyrsta lagi er hún harður áfellisdómur á þá stjórnarstefnu sem fylgt hefur verið á undanförnum árum, einkum í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Sú mikla fjármagnstilfærsla sem þá átti sér stað frá launafólki til fjármagnseigenda og þeirra betur settu í þjóðfélaginu birtist okkur nú í þeirri nöturlegu staðreynd að fjórða hvert heimili á Íslandi eða 20 000 fjölskyldur búa við fátækt og berjast í bökkum til þess að eiga fyrir nauðþurftum.

Í öðru lagi er þessi ráðstefna enn ein staðfesting á því að launakerfið er ónýtt og á því þarf að gera róttæka uppstokkun með það að markmiði að endurmeta störf og kjör láglaunahópanna í þjóðfélaginu. Um það hefur nú á hverju ári í þrjú ár verið lagt fram frv. hér á hv. Alþingi, en það fæst ekki einu sinni afgreitt úr nefnd. Það frv. tekur einmitt á öllum þeim þáttum sem til þarf til að byggja hér upp nýtt launakerfi og rétta hlut þeirra sem verst eru settir.

Það er ekki vafi á samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu á þessari ráðstefnu að það eru einkum einstæðir foreldrar og barnmargar láglaunafjölskyldur, aldraðir og öryrkjar sem verst hafa orðið úti og þyngstar byrðar hafa borið. Sá hópur öryrkja er mjög stór sem einungis hefur sér til framfærslu lífeyri almannatrygginga. Sú staðreynd að 40% aldraðra, 67 ára og eldri, eða 8200 aldraðir á Íslandi hafa einungis sér til framfærslu lífeyri almannatrygginga er hrikaleg og hlýtur að vera nauðsynlegt að taka á því máli að því er varðar ellilífeyrinn.

Ég vil að lokum nefna einn þátt sem skiptir máli og veldur miklu um þá misskiptingu sem er á tekjum og eignum hér á landi. Það virðist skorta pólitískan vilja til að taka á því máli, en það eru skattsvikin. Alþfl. hefur borið fram tvær till. um það mál og fengið samþykktar fyrir einu og hálfu ári. Það hefur þó tiltölulega lítið verið gert í því máli af hálfu stjórnvalda. Ég harma að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu og að aðeins einn ráðherra sjái ástæðu til að vera viðstaddur umræðu þegar verið er að ræða um fátækt hér á Íslandi. Ég hefði viljað fá fram hvort ekki sé að vænta niðurstöðu frá þeirri nefnd sem er að gera úttekt á umfangi skattsvika og átti að hafa skilað niðurstöðum samkvæmt þessari till. Alþfl. fyrir ári.

Ég vil þá beina því að lokum til hæstv. félmrh. hvort ekki hafi átt sér stað umræður í ríkisstj. um hvernig taka eigi á þessum skattsvikum vegna þess að það er örugglega einn stór og veigamikill þáttur í því hvernig komið er varðandi eigna- og tekjuskiptinguna í þessu þjóðfélagi.