25.03.1986
Sameinað þing: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3331 í B-deild Alþingistíðinda. (2953)

Framkvæmd framfærslulaga

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það hefur löngum verið haft að orði að siðmenningu þjóðar mætti meta eftir þeirri mannúð sem hún sýnir þeim sem minna mega sín meðal þegnanna. Íslendingar hafa löngum talið sig meðal siðmenntaðra þjóða, en samt hefur umönnun lítilmagna verið með ýmsum hætti í tímanna rás. Á síðustu áratugum hefur ríkt hér velmegun sem ávöxtur mikillar vinnu og atorku og enginn hefur trúað því að hér ríkti fátækt eða stéttaskipting sem neinu næmi. Á stuttum tíma hefur þó orðið breyting hér á og fer vaxandi sá hópur manna sem getur ekki séð sér farborða þrátt fyrir eðlilega langan vinnudag og enn eru þeir margir sem ekki heldur ná endum saman þótt þeir vinni bæði óhóflega lengi og hafi með höndum fleiri en eitt starf.

Síðan við Kvennalistakonur komum inn á Alþingi höfum við ítrekað vakið athygli á þeim slæmu kjörum sem láglaunahóparnir búa við, en meginhluti þeirra er konur. Margir fleiri þm. úr stjórnarandstöðu hafa sömuleiðis rætt þennan vanda ítarlega og endurtekið. Þessi vandi hefur farið vaxandi með hverju árinu og stafar fyrst og fremst af þeirri láglaunastefnu sem hér er rekin af stjórnvöldum, aðgerðum hennar sem valdið hafa afdrifaríku misgengi milli launa og lánskjara og reyndar í stuttu máli þeim alvarlega skorti á umhyggju sem þessi ríkisstj. sýnir fjölskyldunum í landinu.

Öllum þeim sem hafa það að starfi sínu að sinna þeim einstaklingum og fjölskyldum sem eru illa staddar berast sífellt fleiri og alvarlegri skilaboð um þau vandræði sem að steðja. Langsamlega verst stödd eru einstæð foreldri, en langflest þeirra eru einstæðar mæður. Aldrað fólk og sjúklingar eiga líka um sárt að binda. Þó er vaxandi sá fjöldi fólks sem þrátt fyrir heilbrigði sitt og mikla vinnu lifir undir fátæktarmörkum.

Sú ráðstefna sem hér var getið um áðan og nýlega var haldin sýndi ógnvekjandi upplýsingar svo sem eins og það að fjórða hver fjölskylda á Íslandi lifir undir fátækramörkum. Sömuleiðis var umræða í sjónvarpinu nýlega um upplýsingar sem komu fram á þessari ráðstefnu. Og það var augljóst að sú fátækt sem ríkir nú á Íslandi kom mjög mörgum á óvart. Svo mikið hef ég heyrt af tali manna undanfarna daga. Mig langar til að spyrja hæstv. félmrh. og vildi hafa haft tækifæri til að spyrja fleiri ráðherra sem hér sjást hvergi: Komu þessar upplýsingar honum á óvart og hvernig hyggst hann bregðast við þeim?

Stjórnvöld, sem annaðhvort eru svo kaldrifjuð eða eiga svo erfitt með að setja sig í spor annarra að þau leyfa sér að leysa efnahagsvanda með því að skapa mannlegan vanda, eiga ekkert erindi sem fulltrúar almennings. Þau eru sannarlega ekki fulltrúar þeirra mörgu fjölskyldna sem lifa undir fátækramörkum né heldur þeirra sem vilja ekki una því siðferði í stjórnun sem leyfir slíkri vinnuþrælkun og fátækt að viðgangast meðal þjóðar sem er sú sjötta ríkasta í heimi.