25.03.1986
Sameinað þing: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3333 í B-deild Alþingistíðinda. (2956)

Framkvæmd framfærslulaga

Árni Johnsen:

Herra forseti. Fátækt er stórt vandamál og viðkvæmt og mér finnst hv. málshefjandi nota stór orð sem hann kannske á erfitt með að standa við þegar að er gáð. Það er ekki ástæða til að rugla saman uppsöfnuðum vanda hjá aðilum sem þurfa sannarlega að leita aðstoðar hjá hinu opinbera og öðrum aðilum og hins vegar vanda þeirra sem hafa minni laun en komast sæmilega af.

Það er einnig alvarlegt þegar sagt er að fólk hér á Íslandi lifi við grimmilega fátækt. Miðað við fátækt í heimi og í nærliggjandi löndum býr fólk á Íslandi ekki við grimmilega fátækt. Það er mikill munur á fátækt og grimmilegri fátækt, hvort fólk á einhvers staðar höfði að að halla eða ekki.

Það eru einnig stór orð að segja, eins og hv. málshefjandi gerði, að sjálfsvíg hafi stóraukist. Með samanburði á milli mánaða í ársbyrjun 1985 og 1986 kemur í ljós að dregið hefur úr umsóknum um styrki hjá Félagsmálastofnun. Ef litið er á skýrslur frá þeirri stofnun frá 1979 til 1984 er fjölgun um 30% á því tímabili. T.d. eru á árinu 1979 tekin fyrir 2444 mál en þau eru komin í 3156 árið 1984. Það er 30% aukning, veruleg aukning. En nú virðist vera að draga úr og vonandi er það rétt. Ef maður tekur eitt ár, 1984, þá eru tekin fyrir mál hjá 884 foreldrum sem voru með á sínu framfæri 1493 börn, þ.e. hjá fólki sem leitaði einhverrar aðstoðar eða óskertrar. Verulegur hluti af þeirri aðstoð er lán eða styrkir í eitt skipti. Það er því ástæða til að segja satt og rétt frá.

Varðandi það, sem hv. málshefjandi sagði, að sjálfsvíg hefðu stóraukist, þá er ekki hægt að tala um verulega aukningu í þeim efnum því að um er að ræða miklar sveiflur á áratuga tímabili. En marktækur munur er í rauninni enginn. Ég vil nefna aðeins örstutt dæmi. Árið 1971 var 21 sjálfsvíg hér á landi, þ.e. sjálfsvíg sem er talið öruggt sjálfsvíg og einnig það sem er ekki óyggjandi, gæti verið af slysni. Árið 1974 eru þau 33, árið 1976 21, árið 1977 33, árið 1979 46, árið 1982 27 og árið 1984 46. Þetta sýnir að þegar til lengri tíma er litið er ekki hægt að nota svo stór orð að um stóraukinn fjölda sjálfsvíga sé að ræða. Það er ástæða til að ræða þessi mál af fullri einurð en það ber að forðast að blása upp fátækt á Íslandi umfram það sem ástæða er til.