25.03.1986
Sameinað þing: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3334 í B-deild Alþingistíðinda. (2957)

Framkvæmd framfærslulaga

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég held að það hafi verið kominn tími til að ræða þessi mál hér á Alþingi og það er náttúrlega enginn tími til þess í örstuttum umræðum utan dagskrár að fjalla um það á fullnægjandi hátt. Ég vakti máls á því hér fyrir nokkrum dögum að sú ráðstefna, sem haldin var um fátækt, og þær umræður, sem síðan hafa orðið í fjölmiðlum um það efni, séu meðal hins athyglisverðasta og jafnframt meðal þess óhugnanlegasta sem við höfum orðið vitni að síðustu ár á Íslandi.

Kannske var svo komið að við vorum búin að gleyma því að stór hópur fólks hér lifir undir fátæktarmörkum, lifir ekki mannsæmandi lífi. Við þekkjum það a.m.k., sem höfum starfað og dvalist hér í bænum núna undanfarin ár, að það hefur farið mjög vaxandi að fólk leitar til þm. með vandamál sem varla var minnst á fyrir nokkrum árum. Ég vil undirstrika að ég trúi því fullkomlega og held að það sé síst ofmælt sem félagsmálafulltrúar, sóknarprestar og aðrir þeir aðilar, sem hafa mikið samband við fólk hér í bænum, hafa verið að tjá okkur undanfarnar vikur. Ég held að það sé síst of mikið gert úr ástandinu.

Við skulum ekki gleyma okkur í einhverju pexi um hverjum þetta er að kenna. Auðvitað er stjórnarstefnu um að kenna. En við höfum haft bæði stjórnir sem kalla sig til hægri og vinstri og það er alveg hárrétt, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson segir, öllum stjórnum hafa verið mislagðar hendur.

Höfuðástæðan fyrir þessu er röng skipting arðsins í þjóðfélaginu. Um það hljótum við að vera sammála hvort sem menn eru til hægri, vinstri, í miðjunni eða hvar sem er. Misskipting þess arðs, sem er af vinnu fólksins í landinu, er undirrót vandans og það er einungis með því að leiðrétta það sem unnt er að vinna bug á fátæktinni. En við skulum ekki gleyma okkur í einhverjum allsherjar eldhúsdegi um það hver sökina beri. Við skulum heldur snúa okkur að því að leiðrétta þetta. Þetta verður ekki leiðrétt nema félagshyggja verði leidd hér til öndvegis sem stjórnarstefna.