25.03.1986
Sameinað þing: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3341 í B-deild Alþingistíðinda. (2963)

331. mál, könnun á valdi í íslensku þjóðfélagi

Flm. (Haraldur Ólafsson):

Herra forseti. Við sex þm. Framsfl. höfum leyft okkur að flytja eftirfarandi till. til þál., sem svo hljóðar, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram könnun á valdi í íslensku þjóðfélagi. Könnunin skal fólgin í því að rannsaka og greina hvernig háttað er völdum og valdahlutföllum stofnana og samtaka, bæði opinberra og óopinberra.

Könnun þessari skal lokið innan þriggja ára og niðurstöður hennar kynntar á Alþingi.“

Þessi till. er næsta einföld í framsetningu. Þar segir að ríkisstj. skuli hlutast til um að fram fari könnun á valdi í íslensku þjóðfélagi, að rannsakað verði og greint hvernig háttað er völdum og valdahlutföllum stofnana og samtaka, opinberra og óopinberra.

Í stuttri grg. er lagt til að Háskóla Íslands verði falið að gera könnun þessa og minnt á hve innan hinna ýmsu deilda hans er mikil sérþekking fyrir hendi á öllu því er lýtur að tæknilegri og fræðilegri rannsókn á þjóðfélagi.

Hugtakið vald nær yfir mörg atriði mannlegs samfélags. Vald hefur verið skilgreint sem stjórn eins á öðrum eða möguleikar eins til að koma fram vilja sínum þrátt fyrir andspyrnu. Í hugum margra er vald tengt ofbeldi og stundum talið vera nær því hið sama og yfirgangur og kúgun. Vissulega birtist vald stundum á þann hátt, en miklu oftar er því beitt í samræmi við þau lög og þær reglur sem þjóðfélagið hefur sett sér. Stofnanir hvers mannlegs samfélags eru valdastofnanir þar sem reglur eru settar, atferli einstaklinga og hlutverk hópa afmarkað. Félög og samtök fara með vald af ýmsu tagi þótt oft og tíðum sé erfitt að greina áhrif þeirra í fljótu bragði.

Það er ekki einvörðungu innan stjórnskipunarinnar sem um völd er að ræða. Uppeldiskerfið er þýðingarmikill valdhafi. Innan heimila og í skólum er völdum beitt á margvíslegan hátt. Fjölmiðlarnir móta stóran hluta þjóðarinnar og hafa þannig gífurleg völd, fyrst og fremst með því að velja fyrir fólk fréttir, skemmtiefni og menningarviðhorf.

Þegar rætt er um vald í þjóðfélaginu er í senn átt við beint lagalegt og réttmætt vald ríkisins og þeirra stofnana þess, sem falið er að fara með vald, og hið óbeina vald sem fólgið er í samtökum, fjölmiðlum og uppeldisstofnunum þar sem fjallað er um hagsmuni, innrætingu og mótun viðhorfa. Vald getur einnig verið dulið í siðum og erfðavenjum, trú og hjátrú.

Með þessum fáu orðum vil ég einungis benda á það sem helst ber að kanna. Aðferðirnar geta verið margvíslegar, en miða þó að því eina markmiði að fá glögga mynd af lýðræðisskipun okkar og þeim öflum sem leynt og ljóst taka þátt í þjóðfélaginu. Íslenskt þjóðfélag er fámennt, reyndar eitt af fámennustu menningarsamfélögum í heimi hér, en þrátt fyrir það harla flókið og margbrotið. Við vitum mjög margt um þetta samfélag okkar, en margt er þó á huldu um gerð þess og innviði. Það er skoðun flm. að könnun á valdi og valdastofnunum sé til þess fallin að auka til muna þekkingu okkar á íslensku þjóðfélagi og að sú þekking sé forsenda ýmissa umbóta. Þekking og skilningur á þjóðfélagsaðstæðum auðveldar allar ákvarðanir til hagsbóta fyrir land og lýð. Ekki er ég með þessu að segja að upp verði byggt vísindalegt samfélag, heldur hitt að því meiri þekkingu sem við höfum á eigin þjóðfélagi, þeim mun meir aukast líkurnar á því að okkur takist að forðast mistök í lagasmíð um þjóðfélagsmál.

Íslendingar hrósa sér oft af því að hafa útrýmt misrétti, fátækt og kúgun í landi sínu. Ýmislegt er rétt í þessum fullyrðingum en stundum hættir okkur til að taka fulldjúpt í árinni. Spurningarnar vakna hver af annarri. Er jafnréttið svo algert sem við viljum trúa? Er búið að útrýma fátækt á Íslandi? Er engin kúgun á landi hér? Hver og einn verður að svara fyrir sig og bera fram nýjar og nýjar spurningar.

Það er einmitt einkenni á lýðræðisskipun þeirri, sem við aðhyllumst, að sífellt er verið að rýna í veruleika þjóðfélagsins, leita orsaka þess sem miður fer og reyna að bæta það. Í opnu lýðræðisríki er það skylda þegnanna að fá sem gleggstar upplýsingar um allt það er máli skiptir um þekkingu og skilning á því hvernig háttað er virkni þjóðfélagsins, þ.e. þeim öflum sem mestu ráða um hag og heill hvers og eins. Það er t.d. næsta augljóst að fátækt og misrétti er tilkomið vegna einhvers konar valdbeitingar, beinnar eða óbeinnar. Skipting þjóðarauðsins verður til vegna valdboða af margvíslegu tagi með sköttum, framlögum, launum o.s.frv., o.s.frv. Fátækt á Íslandi er ekki tilkomin vegna lágra þjóðartekna heldur vegna ýmissa annarra orsaka sem rík ástæða væri til að kanna nánar. Misrétti er vegna valdbeitingar og valdskiptingar sem hyglir einum á kostnað annars.

Við lifum í opnu þjóðfélagi og viljum forðast að loka því á nokkurn hátt. Forsendur þess eru að við séum ætíð reiðubúin að standa vörð um lýðræðið, málfrelsið, félagafrelsið, skoðanafrelsið. Við viljum láta þúsund blóm spretta. En við viljum einnig vita sem mest um alla innviði þjóðfélagsins, þekkja þau öfl sem þar eru að verki, bæði hin jákvæðu og neikvæðu, valdið í öllum sínum myndum, öllum sínum birtingarformum, og ekki síður hið leynda, dulda vald, það sem við tökum ekki eftir, áttum okkur ekki á. Valdið er lykillinn að mörgum gátum okkar.

Um þessar mundir er margt rætt um innra öryggi ríkisins. Til athugunar er að efla öryggisvörslu hér á landi og talið að Íslendingar eins og aðrar þjóðir verði að búa sig undir hugsanlegar aðgerðir gegn ríkinu og lykilmönnum þess eða með öðrum orðum: Allur er varinn góður. Sterkasta vörnin í sérhverju lýðræðisríki er að þjóðin sé samhuga um allt það er mestu máli skiptir, að verja sjálfstæði sitt og frelsi til athafna. En til þess að svo megi verða hlýtur það að verða meginmarkmið allra stjórnmálamanna að útrýma misrétti og ójöfnuði fólksins í landinu og sjá til þess að þjóðarauði sé réttilega skipt. Í því felst besta vörnin út á við og inn á við.

Herra forseti. Þáltill. þessi gerir ráð fyrir ítarlegri könnun á ýmsum mikilvægum atriðum í þjóðfélagsskipun okkar. Hún snertir kjarnann í margvíslegri stjórnun og þar með lýðræðisskipun okkar. Það er von mín að þessi till. hljóti greiða leið í gegnum hið háa Alþingi.

Að lokinni þessari umræðu leyfi ég mér að leggja til að málinu verði vísað til hv. allshn. og framhaldsumræðu.

Umr. (atkvgr.) frestað.