01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3345 í B-deild Alþingistíðinda. (2966)

305. mál, sendifulltrúi Íslands á Grænlandi

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Næst okkur af öllum þjóðum landfræðilega séð eru Grænlendingar. Á þeim hálfa áratug sem liðinn er frá því að þeir fengu heimastjórn hefur nauðsynin á nánari samvinnu Íslendinga og Grænlendinga orðið mun ljósari en áður var.

Með útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur eru nú margir fiskistofnar orðnir sameiginlegir, sameiginleg eign þessara tveggja þjóða, og mikil nauðsyn á að þær sameinist um skynsamlega nýtingu þeirra. Nýir markaðir eru að opnast fyrir íslenskar vörur og verktakastarfsemi á Grænlandi og full ástæða er til að auka samvinnu þjóðanna á sviði menntunar og í menningarefnum, m.a. á þann hátt að bjóða ungum Grænlendingum skólavist hér á landi og starfsþjálfun. Af þessum sökum hef ég borið fram eftirfarandi fsp. til utanrrh. á þskj. 569:

„Telur utanrrh. tímabært að skipaður sé sérstakur sendifulltrúi eða ræðismaður Íslands á Grænlandi til þess að annast samskipti þjóðanna á sviði viðskipta, menningar og stjórnmála og gæta hagsmuna okkar þar í landi?"

Það er ekki síst nauðsynlegt að skipa íslenskan fulltrúa á Grænlandi vegna hagsmuna okkar á sviði sjávarútvegsins, fyrst og fremst til að eiga samvinnu við grænlensk stjórnvöld um skynsamlega nýtingu hinna sameiginlegu fiskistofna. Þar má t.d. nefna að íslenskum veiðiskipum er hin mesta nauðsyn á að fá ákveðinn rækjukvóta og veiðirétt á Dohrn-banka þar sem rækjumiðin liggja beggja vegna miðlínunnar. Samningur hefur enn ekki verið gerður um veiðirétt okkar þar þótt við höfum óskað eftir viðræðum við Grænlendinga um málið. Þeir hafa á hinn bóginn lýst áhuga á því að Íslendingar tækju að sér landhelgisgæslu á svæðinu og vissulega er það atriði sem kemur til greina að við önnumst fyrir þeirra hönd, enda munu þeir vanbúnir í þeim sökum.

Í öðru lagi hefur enn ekki tekist að ná samningum um hlutdeild okkar og annarra nálægra þjóða í loðnuveiðunum á Jan Mayen-svæðinu. Þar hafa Grænlendingar óskað eftir 11% kvóta, Norðmenn eftir 13% kvóta, en Íslendingar hafa staðið fast á sinni kröfu um 85% loðnuveiðikvóta og samningar hafa ekki tekist. Það er augljós hagur af því fyrir íslenska útgerðarmenn að fá að stunda loðnuveiðar við Grænland, en hingað til hafa Grænlendingar veitt færeyskum skipum þessi réttindi.

Þá má minna á að Grænlendingar hafa fyrir nokkru gert mjög umdeildan samning við Japana um karfaveiðar við Austur-Grænland sem Efnahagsbandalagið hefur mótmælt, enda hefur það samning við Grænlendinga um veiðar á 55 þús. tonnum af karfa. Með þessu þarf greinilega grannt að fylgjast af okkar hálfu þar sem hér er um sameiginlegan stofn að ræða sem af fiskifræðingum er þegar talinn fullnýttur. Gæti vel komið til greina í framtíðinni að Íslendingar fengju heimildir til karfaveiða við Grænland gegn því að íslensk skip lönduðu aflanum í höfnum á Grænlandi. Það er einn möguleiki af mörgum sem hér koma inn í þessa mynd.

Laxveiðar í sjó við Grænland eru enn eitt málið sem snertir íslenska hagsmuni og þarf einnig að semja um frekari löndunarréttindi Grænlendinga í íslenskum höfnum, en þeir hafa sem kunnugt er landað hér aðallega í höfnum á Vestfjörðum.

Öll þessi mál sýna að nauðsynlegt er að sjónarmiðum Íslendinga í þessum efnum verði komið greiðlega á framfæri við grænlensk stjórnvöld, greiðlegar e.t.v. en hingað til hefur verið unnt að gera.

Ég hef hér fjallað fyrst og fremst um efnahagssamvinnu og samband okkar við heimastjórn Grænlendinga á efnahagssviðinu og sviði fiskveiða, en hér eru ótalin þau verkefni í viðskipta- og menningarmálum sem íslenskur fulltrúi á Grænlandi gæti unnið að í framtíðinni. Því er eðlilegt að athygli sé vakin á þessum málum hér á Alþingi og um það spurt hvort ekki sé tímabært að um skipan slíks íslensks fulltrúa verði að ræða á næstunni.