01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3346 í B-deild Alþingistíðinda. (2969)

305. mál, sendifulltrúi Íslands á Grænlandi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér góð hugmynd og eðlilegt að rætt sé hvort tímabært sé og rétt að Íslendingar skipi fastan fulltrúa til að gæta hagsmuna sinna og hafa samskipti á höndum við Grænlendinga. En ég vek athygli á að hér er um að ræða hluta af miklu stærra máli, sem er í þróun og meðferð þessa dagana, þessar vikurnar og þessa mánuðina, þar sem eru öll samskipti og vaxandi samstarf okkar við þessa grannþjóð á vegum ríkisstj., þjóðþings og embættismanna. Ég tel nauðsynlegt að fara hér fram með yfirvegun og rósemi og taka fullt tillit til sérstakra aðstæðna Grænlendinga, nýfenginnar heimastjórnar þeirra og ungs sjálfstæðis. Ég vil fyrst og fremst benda á nauðsyn þess að líta á þetta mál í samhengi við samvinnu og samstarf við þessa grannþjóð okkar yfirleitt.