04.11.1985
Efri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

91. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Þetta mál er þess eðlis að það er erfitt að móta sér skoðun með eða móti fyrr en nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir þó að margt hafi fróðlegt komið fram í máli hæstv. ráðherra um þetta, m.a. hvernig aðrar þjóðir hafa tekið á þessu alvarlega máli. Það fær vendilega skoðun í nefnd, þ.e. þessi tiltekna breyting sem ég dæmi ekki um á þessu stigi hversu réttmæt er þó að vel kunni svo að vera að hún sé réttmæt, og af ýmsum rökum, sem hæstv. ráðh. kom hér inn á áðan, kann svo vel að vera.

Hins vegar þætti mér eðlilegt að sá vinnuhópur sérfróðra aðila sem mun vera að fjalla um AIDS alveg sérstaklega verði til kallaður. Það má vera að svo hafi verið gert við framlagningu þessa frv. þó að það verði ekki ráðið beint af grg. Að vísu eru þar ágætis menn sem hafa samið þetta frv., þeir Guðjón Magnússon, settur landlæknir, og Ingimar Sigurðsson, yfirlögfræðingur ráðuneytisins. En ef það hefur ekki verið gert verður að gera það í nefndinni, enda á það síður en svo að tefja fyrir framgangi málsins.

Vissulega er hér mikil alvara á ferð og ég tek undir það með hæstv. ráðherra að full ástæða er til að huga að aðgerðum og það fyrr en síðar. Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum svo mikið sem þessi sjúkdómur hefur verið í umræðunni. Ég lýsi því yfir að það er virðingarvert fræðsluritið sem landlæknisembættið hefur gefið út og birt er sem fskj. með þessu frv. Ég spyr kannske um hver dreifing þess hafi verið. Ég reikna með að hún hafi verið með hefðbundnum hætti, að láta rit sem þetta liggja frammi á sjúkra- og heilsugæslustofnunum fyrst og síðast, en kannske ekki mikið meira. Ég veit að það er sú aðferð sem notuð er. Hún gefst að mörgu leyti vel. En ég bendi á að þessir bæklingar vilja gjarnan fara fram hjá jafnvel þeim sem þangað leita, hvað þá hinum sem ekki þurfa blessunarlega að leita þangað en þyrftu kannske á þessu að halda ekki síður en aðrir. Það væri sjálfsagt full ástæða til þess að dreifing á þessu riti færi fram víðar og betur en gert hefur verið.

Ég neita því ekki að mér hefur þótt umræðan um þennan sjúkdóm blandast ýmsum fordómum um of og eins það að fréttir af honum hafa verið í hinum mesta æsistíl. Ekki er það til fyrirmyndar. Ég undrast hins vegar ekki ótta fólks og er þá vonandi að sá ótti endurspeglist í varúð og varkárni sem allra flestra sem gildir auðvitað um þetta.

En í framhaldi af þessu og varðandi þær umræður sem orðið hafa út frá þessum sjúkdómi alveg sérstaklega vildi ég gjarnan, ef hæstv. ráðherra hefði við því einhver svör, spyrja frekar um þær fyrirætlanir sem eru um aðstæður til rannsókna hér og aðgerðir í því efni. Ég geri þetta alveg sérstaklega með tilvitnun til viðtals í NT 29. okt. s.l. þar sem fyrirsögnin er: „AIDS varpar ljósi á frumstæða aðstöðu til læknisrannsókna“. Síðan segir, með leyfi virðulegs forseta, og er haft eftir Helga Valdimarssyni prófessor í veirufræði: „Við stæðum ráðþrota gegn skæðum veirufaraldri.“

Síðan er rakið nokkuð í þessu viðtali hversu óttalegur sjúkdómur þetta sé þar sem þjóðir víða um heim óttast hann og segir síðan að svo virðist sem sjúkdómurinn muni að einu leyti hafa jákvæð áhrif hér á Íslandi, hvernig sem ber nú að skilja það á þann veg. En svo segir í viðtali við þennan prófessor í ónæmisfræði, með leyfi virðulegs forseta:

"„AIDS-málið hefur varpað ljósi á þá staðreynd að uppbygging á rannsóknaraðstöðu fyrir læknisfræði og veirufræði á Íslandi hefur legið í láginni. Rannsóknaraðstaða hér á landi í tengslum við læknisþjónustu er afskaplega frumstæð og bágborin.“

Þetta sagði Helgi Valdimarsson prófessor í ónæmisfræði í samtali við NT í gær. Hann sagði að þegar mál á borð við AIDS fær jafnmikla athygli fjölmiðla kæmi upp í dagsljósið það sem margir læknar hafa vitað, að við stöndum mjög illa á þessu sviði.“

Og enn fremur segir svo: „Það hefur dregist úr hófi að koma upp rannsóknarstofu sem áfram mundi sinna svona rannsóknum meðan flest önnur lönd eiga rannsóknarstofu af þessu tagi.“

Það sem ég staldra fyrst og fremst við er svo síðasta setningin í þessu viðtali: "„Ef upp kæmi nýtt tilfelli af mænusótt eða einhver skæður veirufaraldur, sem væri meira smitandi en AIDS, þá værum við ráðþrota," sagði Helgi.“

Hér er vitanlega um mikið alvörumál að ræða sem snertir meira en þennan sjúkdóm þó vissulega komi hann þar inn á. Ég ætla ekki að ræða það neitt frekar hér, en ef á vegum ráðuneytisins væri á einhvern hátt unnið að því að bæta þá aðstöðu sem þarna er verið að fjalla um og talað er um að sé svo óviðunandi sem þarna er lýst væri vissulega ástæða til að fá um það upplýsingar nú, einmitt þegar við erum að fjalla um þetta mál, eða þá í nefndinni sem tekur þetta mál til umfjöllunar. Þar á ég sæti og má auðvitað eins koma þeim upplýsingum þangað eða við síðari umræðu þessa máls hér í deildinni.